Evrópusambandið ætti að skoða hvort ástæða sé til þess að setja reglur sem takmarka búferlaflutninga lækna milli ríkja í Evrópu, að mati heilbrigðisráðherra Þýskalands, Jens Spahn.
Telur hann slíkar reglur líklegar til þess að stemma stigu við að aðildarríki veiði til sín lækna og aðra sérfæðinga frá hvert öðru, að því er fram kemur í umfjöllun Reuters.
Spahn, sem er ráðherra flokks Angelu Merkel kanslara, hefur sagt það hafa keðjuverkandi áhrif þegar ríki sækja lækna til nágrannaríkja.
„Ég skil þá. Sviss er fallegt land. En það liggur alveg fyrir að það er skortur á þessum sérfræðingum í Þýskalandi og vinna pólskir læknar í landinu. Nú er skortur í Póllandi,“ sagði Spahn við svissneska blaðið Blick am Sonntag.
„Þetta getur ekki talist rétt. Þess vegna ættum við að athuga hvort við þurfum að setja nýjar reglur um það hvernig ríki lokka til sín sérhæft starfsfólk innan Evrópusambandsins, en án þess að breyta grundvallarákvæðum um frjálsa fólksflutninga innan Evrópu,“ er haft eftir honum.
Vísaði Spahn til samkomulags innan Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) sem hann telur geta orðið að fyrirmynd slíkra reglna. Hann tók þó ekki fram hvernig útfærsla slíkra reglna gæti orðið innan Evrópusambandsins.