Í annað skiptið í þessum mánuði hafa viðskiptavinir flugfélagsins Cathay Pacific frá Hong Kong getað keypt flugmiða á fyrsta farrými á yfir 90% afslætti. Ekki er þó um að ræða rausnarlega velvild flugfélagsins, heldur villu í bókunarkerfi sem gaf þennan ríflega afslátt.
South China Morning Post greinir frá því að viðskiptavinir flugfélagsins hafi á sunnudaginn getað keypt miða á fyrsta farrými frá Portúgal til Hong Kong, með millilendingu í London á 1.512 Bandaríkjadali, eða um 180 þúsund íslenskar krónur, en slíkt ferðalag ætti alla jafna að kosta um 16.000 dali, eða tæplega tvær milljónir íslenskra króna.
Fyrr í mánuðinum voru miðar frá Víetnam til New York seldir fyrir 675 dali, en venjulegt verð fyrir þá ferð á fyrsta farrými er einnig í kringum 16.000 dalir.
Flugfélagið ætlar að standa við söluna, líkt og gert var í fyrra skiptið. Félagið segir þó í tilkynningu að það muni skoða ástæðu þess að miðarnir voru seldir á þessu verði.
Cathay Pacific hefur á undanförnum mánuðum í nokkur skipti komist í fjölmiðla fyrir klúður sem þessi og fyrir gagnaleka. Í október var greint frá því að tölvuþrjótar hefðu stolið upplýsingum um 9,4 milljónir viðskiptavina.
Mánuði áður bárust svo fréttir af því að félagið hefði sent eina af vélum sínum aftur í merkingu eftir að nafn flugfélagsins var vitlaust stafað á skrokki flugvélarinnar. Flugfélagið grínaðist með þetta klúður á eigin Twitter-síðu og sagði að merkingin myndi ekki endast lengi.