Báðir flugritar þotu Lion Air fundnir

Kafarar hafa fundið flugrita, það er þann sem tekur upp samtöl flugmanna í flugstjórnarklefanum, úr þotu Lion Air sem fórst í lok október. Allir um borð, 189 manns, fórust.

Þota Lion Air hefði ekki átt að vera í notk­un vegna ít­rekaðra tækni­bil­ana og hefði aldrei átt að fá heim­ild til þess að fara í síðustu flug­ferðina. Þetta segja indó­nes­ísk flug­mála­yf­ir­völd í skýrslu sem var birt í lok nóvember. Þar er skort­ur á eft­ir­liti og ör­ygg­is­mál­um hjá flug­fé­lag­inu gerður að um­tals­efni.

Boeing 737 MAX-þotan hvarf af rat­sjám um 13 mín­út­um eft­ir flug­tak í Jakarta 29. októ­ber og brot­lenti í Java­-hafi stuttu eft­ir að hafa óskað eft­ir því að snúa til baka til Jakarta. 

Indónesísk yfirvöld segja að hljóðritinn geti vonandi gefið skýringar á hvers vegna ný farþegaþota hrapaði til sjávar skömmu eftir flugtak. 

Aðstoðarforstjóri samgönguöryggismála í Indónesíu, Haryo Satmiko, segir að hljóðritinn hafi fundist snemma í morgun en áður hafði ferðaritinn fundist en hann segir til um hraða, flughæð og stefnu flugvélarinnar áður en hún brotlenti.

Ekki er gert ráð fyrir að lokaskýrsla rannsóknarnefndar flugslysa liggi fyrir fyrr en undir lok árs. Raddritinn fannst í um tíu metra fjarlægð frá þeim stað þar sem hinn flugritinn fannst. 

Flugritanna leitað.
Flugritanna leitað. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert