Hótar að eyða Tyrkjum efnahagslega

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti og Donald Trump Bandaríkjaforseti deila um …
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti og Donald Trump Bandaríkjaforseti deila um varnarsveitir Kúrda í Sýrlandi. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hótaði í gær að „tortíma Tyrklandi efnahagslega“ geri tyrkneski herinn árásir á varnarsveitir Kúrda í Sýrlandi í kjölfar fyrirhugaðrar brottfarar Bandaríkjahers frá landinu.

Í tveimur Twitter-færslum sem Trump birti í gær sagðist hann hins vegar ekki heldur vilja að Kúrdar ögruðu Tyrkjum. Bandaríkjaher hefur barist með varnarsveitum Kúrda (YPG) gegn vígasveitum Ríkis íslams í Sýrlandi og hefur það valdið umtalsverðri spennu í samskiptum Bandaríkjanna og Tyrklands, þar sem tyrknesk stjórnvöld telja YPG til hryðjuverkasamtaka.

Hefur Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti gagnrýnt stuðning bandarískra yfirvalda við Kúrda og heitið því að eyða samtökunum.

Tyrknesk stjórnvöld hétu því enda í dag að halda áfram baráttu sinni gegn varnarsveitum Kúrda og sagði Ibrahim Kalin, talsmaður Erdogans, á Twitter í dag að það væri „enginn munur“ á Ríki íslams og YPG. „Við munum halda áfram baráttunni gegn þeim öllum,“ sagði Kalin.

„Hryðjuverkamenn geta ekki verið félagar þínir og bandamenn,“ bætti hann við og vísaði orðum sínum til Trump. „Tyrkland gerir ráð fyrir að Bandaríkin virði hernaðarbandalag okkar og vill ekki að það falli í skuggann af áróðri hryðjuverkamanna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert