Kanadamaður dæmdur til dauða

Xi Jinping, forseti Kína. Kínversk stjórnvöld eru talin ætla að …
Xi Jinping, forseti Kína. Kínversk stjórnvöld eru talin ætla að nota mál Kanadamannsins Robert Lloyd Schellenberg í pólitískum tilgangi í deilum sínum við kanadíska ráðamenn. AFP

Kanadískur karlmaður var í dag dæmdur til dauða í Kína fyrir aðild að umfangsmiklu fíkniefnasmygli en málið hefur aukið á erfiðleika í samskiptum kanadískra og kínverskra stjórnvalda að því er segir í frétt bandaríska dagblaðsins New York Times.

Fram kemur í fréttinni að Kanadamaðurinn, hinn 36 ára gamli Robert Lloyd Schellenberg, hafi lýst yfir sakleysi sínu, hann væri aðeins ferðamaður í Kína sem glæpamenn hefðu komið sök á en dómstóll í norðausturhluta Kína hafi komist að þeirri niðurstöðu að hann hefði tekið fullan þátt í smygli á miklu magni af metamfetamíni.

Schellenberg var í síðasta mánuði dæmdur í 15 ára fangelsi en áfrýjaði þeim dómi. Í millitíðinni segir í fréttinni að samskipti Kína og Kanada hafi farið versnandi í kjölfar handtöku Mengs Wanzhou, fjármálastjóra kínverska raftækjaframleiðandans Huawei, í Kanada.

Hafa handtekið tvo aðra Kanadamenn

Saksóknarar höfðu farið fram á þyngri refsingu yfir Schellenberg og ákvað dómstóllinn í dag að taka undir það sjónarmið. Fram kemur í dómnum að sönnunargögnin gegn Schellenberg væru afgerandi og að hann hefði verið lykilmaður í smyglinu.

Haft er eftir ættingjum Schellenbergs að þeir hafi óttast að hann yrði fórnarlamb deilna kanadískra og kínverskra stjórnvalda og að hann kunni að verða notaður til þess að reyna að greiða fyrir því að fjármálastjóri Huawei verði látinn laus.

Kínversk yfirvöld handtóku tvo aðra Kanadamenn í síðasta mánuði og sökuðu þá um að ógna þjóðaröryggi Kína, Michael Kovrig, starfsmann kanadísku utanríkisþjónustunnar sem er í tímabundnu leyfi frá störfum, og kaupsýslumanninn Michael Spavor. 

Virðast ætla að nota málið í pólitískum tilgangi

Sérfræðingar í málefnum Kína telja að hröð afgreiðsla máls Schellenbergs fyrir kínverskum dómstólum bendi til þess að þarlend stjórnvöld ætli að reyna að nota málið til að þrýsta á lausn Mengs. Það geti einnig skýrt þyngingu á dómi hans úr 15 ára fangelsi í dauðadóm.

Schellenberg var í gæsluvarðhaldi í 15 mánuði áður en mál hans fór fyrst fyrir dóm og það tók aðra 32 mánuði fyrir dómstólinn að komast að niðurstöðu í síðasta mánuði þegar hann var dæmdur í 15 ára fangelsi. Niðurstaðan í dag tók margfalt styttri tíma.

Dómurinn í dag segir að í ljós hafi komið að hlutverk Schellenbergs hafi verið mun stærra í smyglinu en áður hafi verið talið og fyrri dómur því of vægur. Áður en hægt er að framfylgja dauðadómnum yfir Schellenberg þarf hæstiréttur Kína að staðfesta hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert