Kirkja og borg takast á um smápeninga

Trevi-gosbrunnurinn í Róm er 300 ára gamall.
Trevi-gosbrunnurinn í Róm er 300 ára gamall. Ljósmynd/Giorgio Galeotti

Ósætti ríkir á milli borgarstjórnar Rómar á Ítalíu og rómversk-kaþólsku kirkjunnar vegna deilna um hvernig eigi að nota smápeningana sem endurheimtir eru úr Trevi-gosbrunninum.

Trevi-gosbrunnurinn í Róm, sem er 300 ára gamall, er vinsæll meðal ferðamanna, sem henda gjarnan í hann smápeningum. Ár hvert safnast um 1,5 milljónir evra í gosbrunninn, eða rúmar 200 milljónir íslenskra króna, sem venjulega eru látnar renna til góðgerðarstarfs kaþólsku kirkjunnar.

Nú vill borgarstjóri Rómar, Virginia Raggi, hins vegar að peningarnir verði notaðir í uppbyggingu innviða borgarinnar, sem eru að hruni komnir, en kirkjan segir fjármagnstapið munu bitna á þeim verst settu.

Borgarstjórn hefur þegar samþykkt breytingarnar og munu þær taka gildi í apríl. Fjöldi Ítala hefur hins vegar notað samfélagsmiðla til þess að biðla til stjórnarinnar um að endurskoða ákvörðunina.

Raggi tók við stöðu borgarstjóra árið 2016 en hefur sætt talsverðri gagnrýni fyrir að taka ekki á skuldsetningu borgarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert