Mótmæla tvöföldun bensínverðs

Hópar fólks ganga fram hjá vegartálma í Bulawayo í dag.
Hópar fólks ganga fram hjá vegartálma í Bulawayo í dag. AFP

Gríðarmikil reiði hefur brotist út á meðal íbúa Simbabve, eftir að stjórnvöld þar í landi tóku þá ákvörðun að auka álögur á bensín svo mikið að bensínsverðið meira en tvöfaldaðist með einu pennastriki.

Herinn hefur verið kallaður út til þess að hafa hemil á mótmælendum, sem hafa brennt bæði dekk og bíla og stíflað umferðaræðar í höfuðborginni Harare og sömuleiðis í Bulawayo, næststærstu borg landsins.

Lögreglumaður í Bulawayo fjarlægir dekk af götum borgarinnar í dag.
Lögreglumaður í Bulawayo fjarlægir dekk af götum borgarinnar í dag. AFP

Owen Ncube öryggismálaráðherra kennir stjórnarandstöðunni um mótmælin og segir að því miður hafi fólk látið lífið. Hann sagði þó ekki hversu margir hefðu látist, en í frétt AFP er haft eftir samtökum lækna í Simbabve að þrettán manns hefðu komið undir læknishendur með skotsár. Ráðherrann segir 200 mótmælendur hafa verið handtekna.

Forseti Simbabve, Emmerson Mnangagwa, segir að gripið hafi verið verðhækkana á eldsneyti um helgina til þess að bæta birgðastöðuna í landinu, en um þessar mundir er eldsneytisskorturinn í landinu verri en hann hefur verið í áratug.

Reiðir mótmælendur í Harare í dag.
Reiðir mótmælendur í Harare í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka