„Það er mikil sorg í Póllandi í dag“

Þúsundir söfnuðust saman í Varsjá í kvöld til þess að …
Þúsundir söfnuðust saman í Varsjá í kvöld til þess að minnast Adamowicz og mótmæla hatri. AFP

Pawels Adamowicz, borgarstjóra í Gdansk í Póllandi, er víða minnst í dag, en heilbrigðisráðherra landsins staðfesti að hann hefði látist af sárum sínum, sem hlutust er tilræðismaður stakk hann í hjartað á fjöldafundi í gærdag. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Andri Snær Magnason eru á meðal Íslendinga sem minnast hans í dag.

Ingibjörg Sólrún er búsett í Varsjá höfuðborg Póllands, þar sem hún starfar sem framkvæmdastjóri lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE. Á Twitter-reikningi sínum segir hún að hún sé afar leið yfir því að heyra af andláti Adamowicz.

„Hann talaði fyrir réttindum þeirra sem áfram þurfa á vernd okkar og stuðningi að halda,“ sagði Ingibjörg Sólrún um borgarstjórann og á Facebook-síðu segir hún að það sé mikil sorg í Póllandi í dag vegna morðsins.

Það er ekki ofsögum sagt hjá Ingibjörgu Sólrúnu. AFP-fréttaveitan greinir frá því að þúsundir Pólverja hafi komið saman í fjölmörgum borgum og bæjum landsins og minnst borgarstjórans.

Flestir komu saman í Gdansk og Varsjá og minntust borgarstjórans, þeirra á meðal Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sem var vinur og pólitískur bandamaður borgarstjórans.

Frá fjöldafundi í Varsjá undir kvöld.
Frá fjöldafundi í Varsjá undir kvöld. AFP

„Mildur og geðþekkur maður“

Andri Snær Magnason rithöfundur segir á Facebook-síðu sinni að það hafi verið skelfing að heyra af morðinu á Pawel og lýsir honum sem undrabarni í stjórnmálum, en Adamowicz varð borgarstjóri í Gdansk einungis 33 ára gamall og hafði gegnt embætti sínu í 20 ár.

„Pawel var frjálslyndur stjórnmálamaður, stuðningsmaður innflytjenda og samkynhneigðra á tímum rísandi popúlisma og þjóðernishyggju í Póllandi. Hann var sérstakur verndari og þáttakandi í Gay Pride göngunni í Gdansk síðasta sumar og eindreginn andstæðingur þjóðernisöfga núverandi ríkisstjórnar,“ skrifar Andri Snær, sem hitti borgarstjórann þegar leikritið Blái hnötturinn var sett á svið í Gdansk.

Ég hugsaði þegar ég hitti hann, hversu merkilegt það er að vera uppi á tímum þegar svo mildur og geðþekkur maður stýrir þessari sögulegu borg,“ skrifar Andri Snær og birtir mynd af borgarstjóranum, sem tekin hefur verið við þetta tækifæri.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert