Mikill meirihluti þingmanna í neðri deild breska þingsins hafnaði í kvöld samningi sem Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, gerði við Evrópusambandið um útgöngu landsins úr sambandinu. 432 atkvæði voru greidd gegn samningnum en 202 með.
Við því var búist fyrir fram að útgöngusamningnum yrði hafnað og var rætt í því sambandi um í kringum 200 atkvæða mun en hann varð 230. Breska dagblaðið Daily Telegraph segir um stærsta ósigur breskrar ríkisstjórnar í þinginu frá upphafi að ræða. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur lagt fram vantrauststillögu gegn ríkisstjórn May sem gert er ráð fyrir að greidd verði atkvæði um á morgun.
May ávarpaði neðri deildina í kjölfar þess að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar lá fyrir og sagði fyrsta mál á dagskrá að takast á við vantrauststillöguna. Sagðist hún telja ríkisstjórn sína áfram njóta trausts meirihluta þingsins. Hún sagðist staðráðin í að halda áfram ótrauð við að framkvæma niðurstöðu þjóðaratkvæðisins 2016 þar sem meirihlutinn samþykkti að ganga úr Evrópusambandinu og leiða Breta úr sambandinu.
„Þingið hefur talað og ríkisstjórnin mun hlusta,“ sagði May. „Það er ljóst að þingið styður ekki þennan samning en atkvæðagreiðslan í kvöld segir okkur ekkert um það hvað það styður. Ekkert um hvernig, eða jafnvel hvort, það hyggst virða þá ákvörðun sem tekin var af bresku þjóðinni um að yfirgefa Evrópusambandið. Hlustið á bresku þjóðina sem vill lenda þessu máli.“