Verkföll lama flugsamgöngur

AFP

Aflýsa hefur þurft hundruðum flugferða á átta flugvöllum í Þýskalandi í dag vegna verkfalla öryggisvarða. Meðal þeirra er fjölfarnasti flugvöllur landsins, Frankfurt, en um 18 klukkustunda vinnustöðvun er að ræða vegna kjaradeilu.

Forsvarsmenn stéttarfélags öryggisvarðanna, Verdi, segir að verkfallið, sem hófst klukkan 2 í nótt að staðartíma, muni standa til klukkan 20 í kvöld (frá klukkan 1 í nótt til klukkan19 að íslenskum tíma). Um er að ræða flugvellina í Frankfurt, München, Hanover, Bremen, Hamborg, Leipzig, Dresden og Erfurt.

Verkfallið hefur áhrif á að minnsta kosti 220 þúsund ferðamenn, bæði verður flugferðum aflýst eða þeim seinkað. Samkvæmt upplýsingum frá Fraport, sem rekur flugvöllinn í Frankfurt, hefur 570 af þeim 1.200 flugferðum sem voru á áætlun á þessum tíma, verið aflýst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert