Virtur af páfa og hinsegin fólki

Mikil sorg ríkir í Póllandi í kjölfar dauða Pawel Adamowicz, borgarstjóra Gdansk. Adamowicz lést í gær af sárum sem hann fékk í hnífstunguárás á góðgerðarsamkomu daginn áður. Þúsundir komu saman í Varsjá í gærkvöldi til að minnast hans og það sama gerðu fjölmargir samfélagsmiðlanotendur, m.a. Ingi­björg Sól­rún Gísladóttir sem bú­sett er í Var­sjá þar sem hún starfar sem fram­kvæmda­stjóri lýðræðis- og mann­rétt­inda­stofn­un­ar ÖSE.

„Hann talaði fyr­ir rétt­ind­um þeirra sem áfram þurfa á vernd okk­ar og stuðningi að halda,“ sagði Ingi­björg Sól­rún á Facebook.

Pavel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, sendi fjölskyldu Adamowicz samúðarkveður. „Hvað á maður svo sem að segja meira... Pólitík er starf sem maður dregst út í... ýmist vegna sjálfssprottins skyldukalls eða þrýstings samborgara sinna. Það er hrikalegt að horfa upp á fólk sem hefur svarað þessu kalli þurfa gjalda það með lífi sínu,“ sagði Pawel í færslu sinni.

Skipti sér snemma af stjórnmálum

Adamowicz, sem hafði verið borgarstjóri Gdansk í 20 ár, naut almennrar hylli. Hann var frjálslyndur og hafði barist fyrir réttindum bæði farand- og hinsegin fólks og var m.a. sérstakur velunnari göngu hinsegins fólks í Gdansk í fyrra, en gangan var þá haldin í fjórða sinn. Hann skilur eftir sig eiginkonu og tvö börn, 15 og 9 ára.

Adamowicz fæddist í Gdansk 2. nóvember 1965 og var barn hjónanna Teresu og Ryszard sem höfðu flust til borgarinnar árið áður. Hann ólst upp í borginni og var ungur að árum farinn að skipta sér af stjórnmálum.

Hann nam lögfræði við háskólann í Gdansk á níunda áratug síðustu aldar og átti þátt í að skipuleggja stúdentaverkföllin 1988, en það ár gekk mótmælabylgja yfir Pólland sem þá var enn kommúnistaríki. Árið eftir var kommúnistastjórnin fallin og Pólland orðið lýðræðisríki. Á þessum tíma hélt Adamowicz áfram störfum sínum í háskólanum, en var virkur í stjórnmálum á sama tíma Pólland þróaðist yfir í fjölflokkaríki.

Skömmu síðar hóf hann afskipti af sveitarstjórnmálum og var orðinn borgarfulltrúi Gdansk árið 1990. Adamowicz var síðan valinn borgarstjóri árið 1998 og vann yfirburðarsigur í fyrstu almennu borgarstjórakosningunum árið 2002. Hann hefur verið borgarstjóri síðan og hlaut endurkjör í sjötta sinn í nóvember sl. og hefði því átt að gegna embættinu til ársins 2023.

Sæmdur gullkrossi páfa og heiðursorðu

Adamowicz var félagi í frjálslynda hægri flokkinum Platforma Obywatelska allt frá stofnun hans 2002. Hann bauð sig þó fram í fyrra sem óháður frambjóðandi, en naut stuðnings fyrrverandi flokksfélaga sinna í framboðinu.

Platforma Obywatelska var með meirihluta á pólska þinginu í átta ár, en tapaði í þingkosningunum 2015 er íhaldsflokkurinn Lög og réttur (PiS), sem er tortrygginn í garð Evrópusambandsins, náði meirihluta. Hefur spenna í samskiptum Póllands og ESB farið vaxandi í stjórnartíð þess meirihluta. BBC segir Adamowicz alla tíð hafa verið gagnrýninn á aðgerðir PiS.

Þrátt fyrir pólitíska spennu hafa pólskir stjórnmálaflokkar verið einhuga í fordæmingu sinni á morðinu á Adamowicz. „Ég lýsi yfir miklum sársauka vegna hörmulegs dauðsfalls í kjölfar árásar á Pawel Adamowicz borgarstjóra. Við lýsum yfir samhug með fjölskyldu hans, sagði Jaroslaw Kaczynski, formaður PiS, á Twitter í gær.

Jóhannes Páll annar páfi sæmdi Adamowicz gullkrossi Vatikansins árið 2001, að því er fram kemur á Wikipedia-síðu hans. Aleksander Kwaśniewski þáverandi forseti Póllands sæmdi hann pólska heiðurskrossinum árið 2003 og árið 2014 fékk hann einnig frelsis- og einingarorðuna fyrir störf sín fyrir pólska lýðræðisríkið.

Pawel Adamowicz borgarstjóri Gdansk flytur hér ræðu á mótmælum gegn …
Pawel Adamowicz borgarstjóri Gdansk flytur hér ræðu á mótmælum gegn fasistum í borginni. Adamowicz lést í gær eftir hnífstunguárás. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert