Rahaf Mohammed al-Qunun ætlar að berjast fyrir réttindum kvenna. Hún segir komið fram við konur eins og þræla í Sádi-Arabíu.
Hún hefur vakið heimsathygli fyrir að hafa flúið sádiarabíska fjölskyldu sína og óskað eftir alþjóðlegri vernd eftir að hafa verið handtekin á flugvellinum í höfuðborg Taílands, Bangkok. Henni var veitt hæli í Kanada í kjölfar þess að Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) lýsti því yfir að staða hennar væri þannig að hún félli undir skilgreiningu SÞ á flóttafólki.
Rahaf Mohammed al-Qunun segir að hún hafi verið beitt bæði andlegu sem og líkamlegu ofbeldi af hálfu fjölskyldunnar og vöktu færslur hennar á Twitter mikla athygli. Svo mikla að taílensk yfirvöld hættu við að vísa henni úr landi og fékk hún hæli í Kanada í kjölfarið. Utanríkisráðherra Kanada, Chrystia Freeland, tók á móti henni á flugvellinum í Toronto á laugardag og í gær ræddi Qunun í fyrsta skipti við fjölmiðla eftir komuna til Kanada.
Hún segist ætla að berjast fyrir réttindum kvenna um allan heim og að þær fái að upplifa sama frelsi og hún eftir að hún kom til Kanada. „Ég er ein af þeim heppnu.“
„Ég veit að það eru aðrar konur sem ekki eru jafn heppnar og hverfa eftir að hafa flúið og þær eiga engan möguleika á að breyta þeim raunveruleika sem þær búa við,“ segir Qunun.
Fjölskylda hennar neitar að hafa beitt hana harðræði en hún segir sjálf að fjölskyldan hafi ekki leyft henni að vera hún sjálf og sú sem hún vill vera. Ekki hafi verið borin virðing fyrir henni.
„Í Sádi-Arabíu er þetta sama staða allra kvenna fyrir utan þeirra sem eiga skilningsríka foreldra. Þær geta ekki verið sjálfstæðar og þurfa leyfi karla í fjölskyldunni fyrir öllu.“
Qunun segir að þegar henni var tjáð að Kanada byði henni alþjóðlega vernd hafi hún fundið streituna líða hjá. Nú geti hún sjálf tekið ákvarðanir um eigið líf, svo sem ferðalög og hjónaband. „Mig langar að lifa eðlilegu lífi líkt og hver önnur ung kona í Kanada,“ segir hún.
Framkvæmdastjóri Útlendingastofnunar Kanada, Mario Calla, segir að stofnunin sé að aðstoða Qunun, sem er 18 ára gömul, með húsnæði og að opna bankareikning. Eins muni hún fara í enskutíma og fái leiðbeiningar varðandi búsetu í Kanada. Hann segist óttast um öryggi hennar vegna hótana á netinu og að öryggisverðir gæti hennar.
Qunun viðurkennir að hótanir sem hafa birst á samfélagsmiðlum hræði hana og tilfinningar hennar sveiflist til og frá. Hennar mesti ótti sé hins vegar sá að fjölskyldan finni hana og láti hana hverfa.
Á sama tíma og heimsbyggðin hefur fylgst með máli Qunun hélt kínverski andófsmaðurinn Liu Xinglian upp á 64 ára afmæli sitt á Taoyuan-flugvelli í Taívan en þar hefur hann dvalið í meira en 100 daga. Hann hefur ásamt samlanda, Yan Kefen, óskað eftir hæli í Kanada en mál þeirra hefur vakið litla athygli og samúð á samfélagsmiðlum þrátt fyrir að þeir hafi ítrekað sett inn færslur þar um stöðu sína.
„Á flugvellinum getum við ekki andað að okkur fersku lofti og það er ekkert sólarljós,“ sagði Liu í samtali við AFP. Um símtal var að ræða en Liu og Yan hafa í þrjá mánuði beðið í biðsal flugvallarins. Þann tíma hafa flugfélög látið þá fá pakkamat til þess að tryggja að þeir fái einhverja næringu.
Liu og Yan eru gíslar sérstakrar stöðu Taívan alþjóðlega og innanlandsstjórnmála. Sjálfstæði Taívan er ekki viðurkennt af nema örfáum ríkjum og hefur ekki stöðu hjá SÞ sem þýðir að Flóttamannaaðstoð SÞ starfar ekki þar. Engin lög í Taívan eru til verndar flóttafólki.
Enda var aldrei ætlun þeirra að enda í Taívan því þeir flúðu til Taílands á sínum tíma undan pólitískri ógn í heimalandinu. Yan 2015 og Liu árið 2017. Stjórnvöld í Taílandi taka ekki afstöðu til hælisumsókna og láta það í hendur UNHCR að meta og finna hælisleitendum stað í þriðja ríkinu. En listinn er langur og þrátt fyrir að þeir hafi báðir stöðu flóttamanns samkvæmt UNHCR var taílenska lögreglan ekki á sama máli og fylgdist grannt með þeim.
„Ég taldi mig vera í lífshættu í Bangkok,“ segir Yan og bætir við að hann hafi óttast að taílenska lögreglan myndi senda hann aftur til Kína. AFP-fréttastofan segir að full ástæða sé til þess þar sem samskipti ríkjanna tveggja eru náin frá því herforingjastjórnin náði völdum í Taílandi árið 2014.
Yfir eitt hundrað Úígúr-menn (e. uighurs) og hópur aðgerðasinna, en einhverjir þeirra hafa fengið hæli í Kanada, hafa verið sendir aftur til Kína frá Taílandi á undanförnum fimm árum.
Útgefandinn Gui Minhai, sem er með sænskan ríkisborgararétt, hvarf meðal annars í Pattaya og kom óvænt fram í kínverska sjónvarpinu þar sem hann játaði að hafa átt aðild að umferðarslysi.
Liu og Yan ákváðu að forða sér og lentu í Taípei 27. september og þar eru þeir enn. Þeir vissu ekkert hvert þeir ættu að fara, aðeins að þeir ætluðu að sækja um hæli hvar sem það yrði. Þrátt fyrir langa bið segja þeir að yfirvöld í Taívan hafi komið vel fram við þá.