Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hvetur breska þingmenn til þess að „setja eiginhagsmuni til hliðar“ og „vinna saman á uppbyggilegan hátt“ að útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Hún fundaði í kvöld með leiðtogum annarra flokka, en Jeremy Corbyn formaður Verkamannaflokksins tók ekki þátt í fundinum.
Það harmar May og segist vonsvikin yfir því að Corbyn hafi ekki tekið þátt í fundarhöldunum hingað til, en Corbyn hefur lýst því yfir að til þess að Verkamannaflokkurinn komi að borðinu þurfi May að útiloka að Bretland gangi úr Evrópusambandinu án samnings.
Það hefur May ekki gert til þessa, en breska blaðið Telegraph greinir frá því í kvöld að Philip Hammond, fjármálaráðherra í ríkisstjórn May, hafi beint þeim skilaboðum til 330 leiðtoga úr viðskiptalífinu í gærkvöldi, að ólíklegt væri að gengið yrði úr ESB án samnings.
Þetta mun hann hafa gert í símtali, en Telegraph hefur upptökuna undir höndum. Í því kemur fram að óbreyttir þingmenn muni leggja fram frumvarp sem ætlað er að tryggja að ekki verði gengið út án samnings.
Í ávarpi fyrir utan húsakynni sín við Downing-stræti í kvöld sagði May að hún tryði því að ætlun sín væri að uppfylla ósk Breta um að ganga úr Evrópusambandinu og að hún ætlaði sér að gera það. Hún sagði fundina hingað til með öðrum stjórnmálaleiðtogum hafa verið gagnlega og að hún myndi ásamt öðrum æðstu leiðtogum ríkisstjórnarinnar funda með þingmönnum á næstu dögum til þess að fá fram eins fjölbreytt sjónarmið og hægt er, í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi.