Demókratar hafa í hyggju að hefja rannsókn á ásökunum sem settar hafa verið fram í garð Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, um að hann hafi fyrirskipað Michael Cohen, sem lengi var lögmaður hans, að segja fulltrúadeild Bandaríkjaþings ósatt.
Fram kemur í umfjöllun á fréttavefnum Buzzfeed News að Trump hafi gefið Cohen fyrirmæli um að ljúga að þinginu um fyrirætlanir um að reisa byggingu í Moskvu, höfuðborg Rússlands, hliðstæða við höfuðstöðvar forsetans í New York í Bandaríkjunum.
Fjallað er um málið á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC. Þar er rifjað upp meðal annars að Cohen hafi þegar viðurkennt að hafa logið um það hvenær verkefninu lyki og verið dæmdur í fangelsi fyrir það sem og fyrir skattsvik og brot gegn lögum og fjármál kosningaherferða.
Trump hefur ekki brugðist við þessum fréttum en hann hefur áður vísað því á bug að hann hafi nokkurn tímann fyrirskipað Cohen að fremja lögbrot.
Þingnefnd á vegum fulltrúadeildarinnar mun rannsaka málið en demókratar fara með forystu hennar. Nýr formaður nefndarinnar, Adam Schiff, ritaði á Twitter að umræddar ásakanir væru með þeim alvarlegustu sem hefðu verið settar fram á hendur forsetanum til þessa.
„Við munum gera það sem er nauðsynlegt til þess að komast að því hvort þetta er satt,“ sagði Schiff. Buzzfeed segir umfjöllun sína byggjast á framburði tveggja ónafngreindra lögreglumanna sem hafi tekið þátt í að rannsaka málið.