Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að ásakanir þess efnis að hann hafi fyrirskipað fyrrverandi lögmanni sínum, Michael Cohen, að ljúga, séu ósannar. Cohen sé einungis að reyna að stytta fangelsisvist sína.
Fram kom í umfjöllun á Buzzfeed fyrr í dag að Trump hafi skipað Cohen að segja fulltrúadeild Bandaríkjaþings ósatt. Hann hafi átt að ljúga að þinginu um fyrirætlanir um að reisa byggingu í Moskvu, höfuðborg Rússlands, hliðstæða við höfuðstöðvar forsetans í New York í Bandaríkjunum.
Cohen hefur þegar viðurkennt að hafa logið um það hvenær verkefninu lyki en hann var dæmdur í fangelsi fyrir það sem og fyrir skattsvik og brot gegn lögum um fjármál kosningaherferða.
Demókratar vilja rannsaka ásakanirnar en fyrst var greint frá þeim á Buzzfeed.
Einnig er greint frá því í áðurnefndri umfjöllun að Trump hafi hvatt Cohen til að skipuleggja ferð til að hitta Vladimir Pútín Rússlandsforseta í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar 2016.
Cohen sagði fyrir dómi að veikleiki hans væri blinda hollustan við Donald Trump og að honum hafi liðið eins og hann yrði að hylma yfir skítverkin hans.