Gleðiríkara líf eftir tiltekt

Marie Kondo klæðist alltaf hvítu í þáttunum.
Marie Kondo klæðist alltaf hvítu í þáttunum. AFP

Tiltektaraðferðin KonMari breiðist út eins og eldur í sinu eftir að sjónvarpsþáttur Marie Kondo fór í loftið á Netflix í ársbyrjun. Ákveðin tegund skipulagsboxa er uppseld í IKEA á Íslandi og mikið er að gera hjá verslunum sem taka við notuðum fatnaði og bókum í Bandaríkjunum.

Hin japanska Marie Kondo, höfundur metsölubókarinnar The Life-Changing Magic of Tidying Up, er nú með eigin þáttaröð á Netflix, sem heitir Tidying Up with Marie Kondo og var frumsýnd 1. janúar. Bókin kom fyrst út árið 2011 og hefur selst í rúmlega 8,5 milljónum eintaka á rúmlega 40 tungumálum. Hún kom út í Bandaríkjunum 2014 og fór á toppinn á metsölulista New York Times. Hún kom síðan út á Íslandi árið 2016 undir heitinu Taktu til í lífi þínu! Þættirnir virðast hafa slegið í gegn (miðað við umtal en Netflix gefur ekki út áhorfstölur), alla vega fór bókin aftur inn á topp tíu lista hjá New York Times í byrjun árs.
Enn fremur var bókin í vikunni í öðru sæti á metsölulista Amazon, aðeins Michelle Obama var ofar. Annað sem er til marks um vinsældirnar er að 31. desember sl. var Kondo með 710 þúsund fylgjendur á Instagram en núna eru þeir 1,6 milljónir.

Tekið til í ákveðinni röð

Aðferð hennar, sem kallast KonMari, byggist á því að taka til í ákveðinni röð, byrjað er á fötum, því næst bókum og eftir það er allt húsið tekið í gegn, einn flokkur í einu og endað er á hlutum sem hafa tilfinningalegt gildi. Aðeins á að geyma það sem vekur gleði, aðrir hlutir eru kvaddir og þeim þakkað fyrir þjónustuna.

Þættirnir virðast hafa haft áhrif í Bandaríkjunum, búðir sem selja notaðan fatnað og bækur hafa fengið óvenjulega mikið magn til sín í byrjun árs. Beacon’s Closet, keðja fataverslana með notaðan fatnað í New York, hefur fengið óvenjumarga til sín á þessu ári. „Þetta hafa verið virkilega stórir pokar. IKEA-pokar, ferðatöskur og ruslapokar. Það er erfitt að átta sig á magninu en þetta er heill hellingur, ég myndi segja þúsundir klæða á dag,“ sagði verslunarstjórinn Leah Giampietro við CNN. Janúar er yfirleitt frekar rólegur mánuður hjá þeim, sagði Giampietro, út af kuldanum og fólk nennir ekki að flækjast þetta þá. Janúar í ár er undantekning. „Fólk virðist ákveðið í að hreinsa til á heimilinu,“ sagði hún.

Það sem Marie Kondo gerir er að brjóta fötin saman …
Það sem Marie Kondo gerir er að brjóta fötin saman þannig að þau standa upp á annan endann.

Bókabúðin Ravenswood Used Books í Chicago fékk jafn margar bækur í gjöf í annarri viku ársins eins og venjulega á einum mánuði. „Við erum búin að vera á þessum sama stað í fjögur ár og fólk hefur gengið hér fram og til baka án þess að taka eftir okkur. Margir virðast vera farnir að taka eftir okkur núna,“ sagði eigandi verslunarinnar, Jim Mall, í samtali við CNN.

Áhrifa gætir á Íslandi

Félögum hefur fjölgað mjög í Facebook-hópnum KonMari á Íslandi. Þar skrifaði einn félagi sem starfar í IKEA að sala á Skubb og fleiri skipulagsboxum hafi aukist mjög undanfarið en þessi box eru notuð til að raða fötum í skúffur með KonMari-aðferðinni.
Það sem Marie Kondo gerir er að brjóta fötin saman þannig að þau standa upp á annan endann. Oftast hentar vel að brjóta í þrennt og síðan í tvennt en hún útskýrir þetta vel í þáttunum. Fötunum er síðan raðað hlið við hlið en ekki staflað. Til þess að gera verkið auðveldara setur hún oftar en ekki opin box ofan í skúffurnar til að hólfa þær niður.
Þó að bókin hafi haft áhrif virðast þættirnir ætla að hafa enn meiri áhrif enda ná þeir til fleiri og heilu fjölskyldurnar fara að flokka og henda saman. Annar félagi í fyrrnefndum Facebook-hópi sagði frá því að dætur hennar byrjuðu að flokka dótið sitt og setja í poka það sem má fara eftir að hafa horft á þættina.

Ólíklegt er að Kondo hafi sjálfa órað fyrir þessu á uppvaxtarárunum í Japan. Hún hafði alla tíð gaman af því að taka til og fór síðan að vinna við skipulagningu hjá öðrum en ákvað að gefa út bók til að geta hjálpað fleirum þegar biðlistinn var orðinn langur hjá henni. Útkoman er fyrsta ofurstjarnan í heimi skipulagningar og tiltektar. Ekki er vitað hvað Netflix borgaði henni fyrir þættina en það hefur væntanlega verið há upphæð ef miðað er við hvað greitt er fyrir bækur hennar.

Gleði í vinnunni

Þriðja bók hennar mun bera nafnið Joy at Work: The Carreer-Changing Magic of Tidying Up, sem hún skrifar með Scott Sonensheim, prófessor í stjórnun við Rice University School of Business. New York Times hefur heimildir fyrir því að útgáfurétturinn hafi selst fyrir sjö stafa tölu, það er sumsé verið að tala um Bandaríkjadali og milljónir. Bókin er væntanleg vorið 2020.

Variety spurði Kondo hvað hún héldi að væri stærsta lexían sem fólk gæti lært af þáttunum. „Það sem ég óska mér helst er að áhorfendur byrji að taka til sjálfir og haldi áfram í þessu ferli. Ég vona að þeir verði þakklátari en áður fyrir það sem þeir eiga og líf þeirra verði gleðiríkara en nokkru sinni fyrr!“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert