Myndskeið sem sýnir hóp ungmenna, marga þeirra með derhúfur með áletruninni Make America Great Again, gera lítið úr frumbyggja í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington DC, hefur farið víða á samfélagsmiðlum um helgina og vakið litla hrifningu flestra.
Unglingarnir eru nemendur við kaþólskan menntaskóla í Kentucky og sjást lítilsvirða Nathan Phillips þar sem hann syngur og spilar á trommur. Ungmennin voru í höfuðborginni til þess að taka þátt í mótmælum gegn þungunarrofi á föstudag þegar þau rákust á Phillips, sem meðal annars barðist í Víetnam-stríðinu. Skólinn hefur beðið hann afsökunar á athæfi nemendanna.