Verkfræðingar sem byrjuðu að grafa göng meðfram borholu á Spáni, sem tveggja ára drengur datt ofan í fyrir viku, vonast til þess að þeim takist að komast að drengnum í dag.
Julen Rosello datt ofan í borholu í bænum Totalan síðasta sunnudag og hefur fátt annað komist að hjá spænsku þjóðinni þessa dagana annað en vonin um að takist að bjarga drengnum, en litlar líkur eru á að drengurinn sé enn á lífi. Talið er að borholan sem Julen féll ofan í hafi verið ómerkt en hún er 110 metra djúp og 38 cm að ummáli þar sem hún er víðust.
Fjölmennt björgunarlið reynir allt til þess að komast að drengnum og meðal þeirra sem taka þátt í björgunarstarfinu eru sérfræðingar sem aðstoðuðu við að bjarga námaverkamönnum í Chile fyrir nokkrum árum.
Talsmaður lögreglu segir í samali við The Local að foreldrar Rosello hafi verið yfirheyrðir sem og maðurinn sem gróf borholuna. Ekkert lok var yfir holunni, hún var hvergi merkt og engar viðvaranir voru við hana. Yfirvöld í Andalúsíu segja að maðurinn sem gróf holuna hafi ekki haft til þess tilskilin leyfi.
Þetta er ekki fyrsta áfallið sem foreldrar Julen verða fyrir tengt börnunum sínum, en þau misstu þriggja ára barn sitt árið 2017, sem var hjartveikt.