ESB beitir tilræðismennina refsiaðgerðum

Leyniþjónustumennirnir Anatoliy Vladimirovich Chepiga og Alexander Mishkin fóru með taugaeitrið …
Leyniþjónustumennirnir Anatoliy Vladimirovich Chepiga og Alexander Mishkin fóru með taugaeitrið til Bretlands. AFP

Evrópusambandið staðfesti í dag refsiaðgerðir gegn hátt settum yfirmönnum í leyniþjónustu rússneska hersins (GRU) vegna aðildar þeirra að tilræðinu við rússneska gagnnjósnarann Sergei Skripal í Salisbury í Bretlandi í fyrra.

Segir BBC refsiaðgerðirnar beinast gegn fjórum einstaklingum, m.a. forstjóra GRU og aðstoðarforstjóra, sem og leyniþjónustumönnunum tveimur sem framkvæmdu tilræðið. Hafa allar eignir mannanna innan Evrópusambandsins verið frystar, auk þess sem þeim er bannað að ferðast til ríkja ESB. Þá er öllum einstaklingum og fyrirtækjum innan ESB bannað að veita fjórmenningunum nokkurn fjárhagsstuðning.

BBC segir þetta í fyrsta skipti sem ESB hafi beitt refsiaðgerðum vegna taugagasnotkunar.

Í yfirlýsingu ESB segir að þeir Anatoliy Vladimirovich Chepiga og Alexander Mishkin hafi haft Novichok-taugaeitrið í fórum sínum og að þeir hafi flutt það til Salisbury, þar sem þeir notuðu það, en morðákæra hefur verið gefin út á hendur þeim í Bretlandi.

Igor Olegovich Kostyukov, forstjóri GRU, og aðstoðarforstjórinn Vladimír Stepanovich Alexseyev eru þá ákærðir fyrir að bera ábyrgð á notkun og flutningi taugagassins, sem og að leyniþjónustumennirnir hafi haft það í fórum sínum.

Rússnesk stjórnvöld hafa allt frá því að nöfn þeirra Chepiga og Mishkin voru birt opinberlega fullyrt að engar sannanir séu til þess efnis að GRU hafi staðið að tilræðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka