Egypskur sjónvarpsmaður hefur verið dæmdur í eins árs vinnuþrælkun fyrir að hafa í fyrra tekið viðtal við samkynhneigðan mann. Dómstóll í Giza í Egyptalandi dæmdi sjónvarpsmanninn, Mohamed al-Ghiety, einnig til að greiða sektargreiðslu að andvirði um 20.000 kr. fyrir að „auglýsa“ samkynhneigð á sjónvarpsstöð sinni LTC.
BBC greinir frá og segir að í viðtalinu hafi ekki var gefið upp hver samkynhneigði maðurinn var, en hann ræddi þar starf sitt í kynlífsiðnaðinum. Samkynhneigð er ekki bönnuð með lögum í Egyptalandi, en yfirvöld þar í landi hafa engu að síður í síauknum mæli beitt sér gegn samfélagi hinsegins fólks.
Er hinsegin fólk þannig reglulega handtekið vegna gruns um „úrkynjun“, ósiðleika eða guðlast.
Al-Ghiety, sem hefur ítrekað látið í ljós fordóma gegn samkynhneigð, ræddi í viðtalinu við samkynhneigðan mann sem harmaði kynhneigð sína og lýsti lífi sínu við að selja sig. Búið var að gera andlit mannsins óþekkjanlegt.
Fjölmiðlaeftirlit Egyptalands setti sjónvarpsstöðina í tveggja vikna útsendingarbann eftir birtinguna fyrir brot á starfsemi sinni.
Auk fangelsisvistarinnar og sektargreiðslunnar fyrirskipaði dómstóllinn að al-Ghiety sæti eftirliti í ár eftir að fangelsisdómi hans lýkur. Al-Ghiety er þó sagður geta áfrýjað dóminum og óskað eftir að hljóta skilorðsbundinn dóm.