Liðsmenn í þjóðvarðliði Venesúela hafa verið handteknir eftir að hafa gert uppreisn gegn ríkisstjórn Nicolás Maduro forseta Venesúela að því er BBC greinir frá. Í myndböndum sem birt hafa verið á samfélagsmiðlum sjást þjóðvarðliðarnir kalla eftir því að Maduro láti af embætti.
Greint var frá því í yfirlýsingu frá varnarmálaráðuneyti Venesúela í dag að mennirnir hafi lagt hald á vopn í herstöð í höfuðborginni Caracas. Eru myndböndin einnig sögð sýna átök íbúa og öryggislögreglu í nágrenninu í Cotiza-hverfinu í borginni.
Um ár er nú liðið frá því að Óscar Pérez, þyrluflugmaður og fyrrverandi lögreglumáður, varpaði handsprengju að stjórnarbyggingum í landinu. Hann var drepinn eftir níu tíma umsátur lögreglu.
Varnarmálaráðuneytið segir „lítinn hóp“ þjóðvarðliða hafa stolið vopnum úr herstöðinni og eru þeir sagðir hafa tekið fjóra flugliðsforingja í gíslingu áður en þeir héldu í Cotiza-hverfið í Caracas snemma í morgun.
Á myndbandi sem birt var á Twitter sést maður í einkennisbúningi hermanns segjast vera að bregðast við fyrir hönd almennings í Venesúela og hvetur hann Venesúelabúa til að þyrpast út á göturnar og mótmæla stjórninni. Segir varnarmálaráðuneytið þá hafa mætt „harðri andspyrnu“ hermanna sem hliðhollir séu stjórnvöldum.
Mikil mótmælabylgja gekk yfir Venesúela í apríl og maí 2017, en mikil efnahagskreppa hefur verið í landinu undanfarin ár. Verulega dró hins vegar úr mótmælunum eftir að átök mótmælenda og hers urðu mannskæð, en auk þess voru hundruð mótmælenda handteknir. Sögðust margir í kjölfarið ekki þora að mótmæla.
Undanfarnar vikur hefur hins vegar fjölgað á ný í hópi mótmælenda og hefur nýr leiðtogi stjórnarandstöðunnar Juan Guaidó hvatt fólk til að láta í sér heyra, en hann hefur m.a. boðað til mótmæla gegn stjórninni nú á miðvikudag.