Ole Geir Hodne hefur verið saknað frá því fyrir þremur og hálfu ári. Nú hefur debetkortið hans fundust og það á líki.
Líkt og fram kom í frétt mbl.is í gær fundu iðnaðarmenn lík í yfirgefnu húsi á fimmtudaginn í miðbæ Sandness Rogalandi. Þar kom fram að húsið var notað undir kennslu á árum áður en hefur nú staðið autt frá 2010 og verið haft sem geymsluhúsnæði. Stendur til að gera það upp sem nýja heilsugæslu bæjarins en sveitarfélagið er eigandi hússins.
Iðnaðarmennirnir höfðu verið að störfum frá því skömmu eftir áramót og höfðu tekið til við að rífa ýmsa innviði hússins til að búa það undir nýtt hlutverk. Það var þá sem þeir fundu líkið, sem er af karlmanni og hefur að öllum líkindum verið í húsinu árum saman miðað við ástand þess og staðsetningu, sagði í frétt mbl.is í gær.
Lögreglan í suðvesturumdæminu í Noregi staðfesti að persónuskilríki hefðu fundist á þeim látna en vildi ekki veita frekari upplýsingar um skilríkin og eiganda þeirra.
Í morgun greinir norska ríkisútvarpið frá því að debetkortið tilheyri Ole Geir Hodne Viste og það hafi fundist í fatnaði þess látna. Fjölskyldu hans hefur verið greint frá þessu. Kortið var síðast notað 16. júní 2015. Vitni segjast hafa hitt Hodne Viste daginn eftir í Sandnes. Hodne Viste var 36 ára gamall þegar hann hvarf sporlaust.
Lone Wickstrøm, sem stýrir mannhvarfsdeild lögreglunnar, segir að ekki hafi verið staðfest hver sá látnir er en beðið er niðurstöðu frá réttarmeinasérfræðingum. Ekki er vitað hvort um saknæmt athæfi er að ræða eða óhapp.
Í sjónvarpsþætti á TV2 átta mánuðum eftir hvarf Hodne Viste kom fram að talið væri að hann hafi ekki látið sig hverfa af sjálfsdáðum en ekki væri vitað hvort ástæðan væri saknæm eða óhapp. Í þættinum var rætt við lögreglumann í Stavanger, Alf Kåre Sola, sem kom að leitinni.
Debetkortið var síðast notað 16. júní 2015 en þá tók Hodne Viste út 6.800 krónur úr hraðbanka við 7-Eleven við Jernbaneveien í miðborg Stavanger klukkan 15:45. Sjö og hálfum tíma síðar var kortið notað í síðasta skiptið en þá var það til þess að greiða fyrir leigu á skáp á járnbrautarstöðinni, nokkur hundruð metra frá 7-Eleven. Í skápnum fann lögregla bakpoka hans, tjald og svefnpoka. Aðfaranótt 17. júní telur lögregla að Hodne Viste hafi verið í íbúð á Storhaug í Stavanger. Seinna þann sama dag segja tvö vitni að þau hafi séð hann í Sandnes milli klukkan 12 og 15.
Í þættinum á TV2 sagði Alf Kåre Sola að lögreglan hefði, á þeim átta mánuðum sem liðnir væru frá hvarfi hans, yfirheyrt 45 manns.