Franski matreiðslumeistarinn Sebastien Bras sem rataði í fréttirnar 2017 þegar hann vildi fá að skila Michelin-stjörnunum þremur sem veitingastaður hans, Le Suquet, hafði fengið, segir það hafa komið sér á óvart að veitingastaðurinn er aftur kominn á lista Michelin fyrir árið 2019.
BBC segir Le Suquet þó ekki vera með nema tvær stjörnur í nýju Michelin-veitingahúsabókinni, í stað þriggja stjarna áður, en Michelin féllst á sínum tíma á beiðni hans um að skila stjörnunum.
Bras sagði á sínum tíma að þó að stjörnurnar hefðu veitt sér umtalsverða ánægju hefði heiðurinn jafnframt verið honum þungbær.
„Þú ert tekinn út tvisvar til þrisvar á ári og þú veist aldrei hvenær. Hver einasta máltíð sem send er úr eldhúsinu gæti mögulega verið tekin út. Það þýðir að á hverjum degi gæti ein af þeim 500 máltíðum sem fara úr eldhúsinu verið dæmd,“ sagði Bras þá. Sjálfur vildi hann halda áfram að valda matgæðingum undrun og ánægju án þess að þurfa að velta því fyrir sér hvort sköpunarverk hans þóknist rannsakendum Michelin.
Matreiðslumeistarinn sagði við fjölmiðla nú í tilefni af endurkomu Le Suquet á listann fyrir 2019 að Michelin hafi gert honum ljóst að staðurinn verði að standast kröfurnar sem til hans eru gerðar.