Hissa að fá Michelin-stjörnurnar aftur

Sebastien Bras í eldhúsinu á veitingastað sínum Le Suquet. Hann …
Sebastien Bras í eldhúsinu á veitingastað sínum Le Suquet. Hann kvaðst hafa verið hissa að frétta að staðurinn væri aftur kominn með Michelin-stjörnur. AFP

Franski matreiðslumeistarinn Sebastien Bras sem rataði í fréttirnar 2017 þegar hann vildi fá að skila Michelin-stjörnunum þremur sem veitingastaður hans, Le Suquet, hafði fengið, segir það hafa komið sér á óvart að veitingastaðurinn er aftur kominn á lista Michelin fyrir árið 2019.

BBC segir Le Suquet þó ekki vera með nema tvær stjörnur í nýju Michelin-veitingahúsabókinni, í stað þriggja stjarna áður, en Michelin féllst á sínum tíma á beiðni hans um að skila stjörnunum.

Bras sagði á sínum tíma að þó að stjörn­urn­ar hefðu veitt sér um­tals­verða ánægju hefði heiður­inn jafn­framt verið hon­um þung­bær.

Sebastien Bras ásamt föður sínum Michel árið 2014.
Sebastien Bras ásamt föður sínum Michel árið 2014. AFP

„Þú ert tek­inn út tvisvar til þris­var á ári og þú veist aldrei hvenær. Hver ein­asta máltíð sem send er úr eld­hús­inu gæti mögu­lega verið tek­in út. Það þýðir að á hverj­um degi gæti ein af þeim 500 máltíðum sem fara úr eld­hús­inu verið dæmd,“ sagði Bras þá. Sjálfur vildi hann halda áfram að valda mat­gæðing­um undr­un og ánægju án þess að þurfa að velta því fyr­ir sér hvort sköp­un­ar­verk hans þóknist rann­sak­end­um Michel­in.

Matreiðslumeistarinn sagði við fjölmiðla nú í tilefni af endurkomu Le Suquet á listann fyrir 2019 að Michelin hafi gert honum ljóst að staðurinn verði að standast kröfurnar sem til hans eru gerðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert