Fundu beinagrind á svæði gróðureldanna

Brunarústir í Malibu eftir Woolsey gróðureldana. Lögregla reynir nú að …
Brunarústir í Malibu eftir Woolsey gróðureldana. Lögregla reynir nú að ákvarða hvort brunnin beinagrind sem fannst sé af fórnarlambi eldanna. AFP

Brunn­in beina­grind fannst á mánu­dag á einu þeirra svæða í strand­bæn­um Mali­bu sem urðu illa úti í gróðureld­un­um sem þar fóru yfir í nóv­em­ber. Reu­ters-frétta­veit­an hef­ur eft­ir tals­manni lög­reglu í Los Ang­eles-sýslu að rann­sak­end­ur reyni nú að ákv­arða hvort hinn látni hafi verið fórn­ar­lamb glæps eða hafi lát­ist af völd­um eld­anna.

Beina­grind­in fannst síðla dags á mánu­dag og hef­ur lög­regla verið með málið til rann­sókn­ar síðan. Trina Schra­der hjá lög­reglu­yf­ir­völd­um Los Ang­eles seg­ir kyn og dánar­or­sök, sem og hvort viðkom­andi hafi verið myrt­ur, von­andi liggja fyr­ir að lok­inni krufn­ingu.

„Þetta er rann­sókn á dauðsfalli og morðdeild okk­ar er með málið til skoðunar,“ sagði hún og bætti við að ekki hefðu verið nein sýni­leg merki um of­beldi á vett­vangi eða á lík­inu sjálfu.

Lög­regla biðlar nú til al­menn­ings að hafa sam­band ef fólk tel­ur sig hafa ein­hverj­ar upp­lýs­ing­ar sem geti gagn­ast við rann­sókn­ina, eða mögu­lega aðstoðað við að bera kennsl á líkið.

Þetta er annað líkið sem fund­ist hef­ur í Mali­bu eft­ir Wools­ey-gróðureld­ana, en hús­eig­andi sem var að skoða um­fang skemmda eft­ir eld­ana fann hluta af brunnu líki á land­ar­eign sinni í nóv­em­ber. Ekki hef­ur enn tek­ist að bera kennsl á hinn látna, en talið er að hann hafi verið lát­inn áður en eld­arn­ir kviknuðu.

Vitað er til þess að þrír hafi far­ist í Wools­ey-eld­un­um, sem kviknuðu í Kali­forn­íu á sama tíma og Camp-gróðureld­arn­ir sem urðu 86 manns að bana og reynd­ust þeir mann­skæðustu í sögu rík­is­ins.

Talið er að tjón af völd­um eld­anna tveggja nemi á bil­inu 9-13 millj­örðum Banda­ríkja­dala.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka