Lýsti sig starfandi forseta Venesúela

Juan Guaido.
Juan Guaido. AFP

Forseti þings Venesúela, Juan Guaido, lýsti sig sem starfandi forseta landsins í dag á meðan á fjöldamótmælum stóð gegn forsetanum Nicolas Maduro.

Skömmu áður fyrirskipaði Hæstiréttur landsins að rannsókn færi fram á þingi landsins.

Tugir þúsunda mótmælenda söfnuðust saman á götum Venesúela í dag til að mótmæla Maduro og ríkisstjórn hans. Fjórir eru sagðir hafa látist. Guaido, sem skipulagði mótmælin fyrir hönd stjórnarandstöðunnar, hefur hvatt herinn til að leysa upp ríkisstjórn landsins. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur viðurkennt Guaido sem starfandi forseta.

Bandaríkin hafa varað við því að „allir möguleikar“ verði skoðaðir ef Maduro ákveður að beita afli vegna deilu sinnar við stjórnarandstöðuna í landinu.

„Ef Maduro og hans fólk ákveður að bregðast við með ofbeldi, ef þau kjósa að skaða einhvern af þingmönnunum […] eru allir möguleikar á borðinu fyrir Bandaríkin hvað viðbrögð varðar,“ sagði háttsettur embættismaður í samtali við blaðamenn.

Fleiri þjóðir hafa viðurkennt Guaido sem starfandi forseta Venesúela, þar á meðal Brasilía, Kanada og Kólumbía. 

Frá mótmælunum í dag.
Frá mótmælunum í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert