Íbúar Venesúela sýni stillingu

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. AFP

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, kallar eftir því að íbúar í Venesúela sýni stillingu og ræði saman til að koma í veg fyrir stjórnmálakrísu í landinu. For­seti þings Venesúela, Juan Guaido, lýsti sig starf­andi for­seta lands­ins í gær meðan á fjölda­mót­mæl­um stóð gegn for­set­an­um Nicolas Maduro.

„Við vonum að samtal geti átt sér stað og að hægt sé að forðast stigmögnun átaka sem gæti leitt til hörmungarástands fyrir þjóðina í Venesúela og löndin í kring,“ segir Guterres, sem er staddur á heimsviðskiptaráðstefnunni í Davos í Sviss.

For­seti þings Venesúela, Juan Guaido, lýsti sig starf­andi for­seta lands­ins …
For­seti þings Venesúela, Juan Guaido, lýsti sig starf­andi for­seta lands­ins í gær meðan á fjölda­mót­mæl­um stóð gegn for­set­an­um Nicolas Maduro. AFP

Ríki heimsins bregðast við stjórnmálatíðindum gærdagsins eitt af öðru og hefur Danmörk bæst í hóp þeirra landa sem viðurkenna Guaido sem starf­andi for­seta lands­ins, en áður hafa Banda­ríkin, Bras­il­ía, Kól­umbía, Perú og Kan­ada lýst yfir stuðningi við Guaido.

Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Danmerkur, segir í færslu á Twitter að ný von hafi kviknað í Venesúela og að Danir styðji stofnanir sem hafi verið kosnar með löglegum og lýðræðislegum hætti, ekki síst löggjafarþingið og þar með Juan Guaido.

Þá hefur Federica Mogherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandins, einnig lýst því yfir að ESB styðji Guaido og hvatti hún til þess að lýðræðislegar og trúverðugar kosningar fari fram í landinu sem fyrst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert