Ítalska ríkið braut gegn Knox

Fjögur ár eru síðan Knox, sem er bandarísk og var …
Fjögur ár eru síðan Knox, sem er bandarísk og var í skiptinámi á Ítalíu, var sýknuð af ákæru um að hafa myrt breska náms­mann­inn Meredith Kercher á Ítal­íu árið 2007. AFP

Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi í dag ítalska ríkið til að greiða Amöndu Knox 18.400 evrur, jafnvirði um 2,5 milljóna króna, í skaðabætur vegna óréttlátrar málsmeðferðar.  

Fjögur ár eru síðan Knox, sem er bandarísk og var í skiptinámi á Ítalíu, var sýknuð af ákæru um að hafa myrt breska náms­mann­inn Meredith Kercher á Ítal­íu árið 2007.

Knox hélt því fram fyrir dómi að hún hafi ekki hlotið rétt­láta málsmeðferð í ít­alska rétt­ar­kerf­inu. Hún sat alls fjög­ur ár í varðhaldi á Ítal­íu áður en hún var sýknuð. Tel­ur hún að brotið hafi verið á mann­rétt­ind­um sín­um þar sem hún var yf­ir­heyrð í marga klukku­tíma á ít­ölsku án þess að hafa túlk sér við hlið. Þá var henni ekki út­vegaður lög­fræðing­ur fyrr en eft­ir yf­ir­heyrsl­una og held­ur hún því einnig fram að hún hafi verið beitt of­beld­is­full­um yf­ir­heyrsluaðferðum.

Í vitnisburði Knox fyrir mannréttindadómstólnum kemur fram að hún hafi verið slegin tvisvar í höfuðið og neydd til að tala þrátt fyrir að vera örmagna. Ítalska ríkið var dæmt fyrir að útvega Knox ekki lögfræðing fyrir yfirheyrsluna. Engar sannanir fundust þó fyrir því að brotið hefði verið á mannréttindum Knox meðan á yfirheyrslunni stóð.

Var hún ásamt kær­asta sín­um Raffa­ele Solicito ákærð fyr­ir morðið en voru þau bæði sýknuð. Kercher var árið 2007 stung­inn til bana í íbúð sinni í ít­alska bæn­um Perugia þar sem hann bjó ásamt Amöndu Knox. Taldi ákæru­valdið að um hefði verið að ræða kyn­lífs­leik sem fór úr bönd­un­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert