Stjórnvöld í Rússlandi saka Juan Guaido, þingforseta Venesúela, um tilraun til valdaráns en Guaido lýsti sig starfandi forseta landsins í gær meðan á fjöldamótmælum stóð gegn forsetanum Nicolas Maduro.
Á sama tíma hafa Bandaríkin, Frakkland, Brasilía, Kólumbía, Perú, Kanada og Danmörk lýst yfir stuðningi við Guaido.
Dimitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Kreml, segir að Rússar styðji Maduro. Að þeirra mati er hann lögmætur leiðtogi Venesúela en tilraun Guaido til valdaráns brjóti gegn alþjóðalögum. Rússar hafa stutt við ríkisstjórn Maduros síðustu ár, meðal annars með lánveitingum og aukinni hernaðarsamvinnu.
Yfirvöld á Spáni hafa ekki tekið afstöðu í yfirvofandi stjórnarkrísu í Venesúela en Josep Borrell, utanríkisráðherra Spánar, segir að ástandið verði einungis leyst með kosningum.
Guaido lýsti sig forseta í miðjum fjöldamótmælum gegn Maduro sem hafa staðið yfir í nokkra daga og hafa 13 manns látist í mótmælunum. Þetta eru fjölmennustu mótmælin frá því að gríðarstór mótmælabylgja gekk yfir Venesúela í apríl og maí 2017, en mikil efnahagskreppa hefur verið í landinu undanfarin ár. Verulega dró hins vegar úr mótmælunum eftir að átök mótmælenda og hers urðu mannskæð, en auk þess voru hundruð mótmælenda handteknir.
Mótmælendur sem fjölmenna á götur Caracas, höfuðborgar Venesúela, þessa dagana skiptast í tvær fylkingar. Annars vegar eru það stuðningsmenn Maduro sem klæðast rauðu og fjölmenna fyrir utan forsetahöllina og mótmæla valdaráni sem þeir segja að sé stutt af Bandaríkjastjórn. Hins vegar má sjá tugþúsundir mótmælenda sem klæðast hvítu, veifa venesúelska fánanum og kyrja: „Guaido, vinur, fólkið stendur með þér.“