Bilun í lás mögulega orsök slyssins

Átta létust er lestin fór út af sporinu og er …
Átta létust er lestin fór út af sporinu og er rannsóknarnefnd samgönguslysa í Danmörku nú með tildrög slyssins til skoðunar. AFP

Bilun í lás á einum flutningavagnanna kann að reynast ástæða þess að vagnarnir fóru út af sporinu og ollu mannskæðu lestaslysi á Stórabeltisbrúnni í upphafi þessa árs.

Átta manns létust í slysinu og 16 slösuðust, en rúmlega 130 manns voru um borð í lestinni.

Danska dagblaðið Berlingske tidende greinir frá því að rannsóknarnefnd samgönguslysa í Danmörku hafi fundið vísbendingar sem benda til þess að einn lásanna kunni að hafa verið bilaður. Lásarnir eiga að halda lestarvögnunum föstum, en svo virðist vera sem lásinn sem halda átti þessum vöruflutningavagni, hafi ekki virkað sem skyldi.

„Þetta er niðurstaða frumrannsóknar á vöruflutningavögnunum,“ skrifar Berlingske. Grunur hafi leikið á að lásabúnaðurinn væri gallaður og rannsókn nefndarinnar bendi til þess að svo hafi verið.

„Þetta þýðir þó ekki endilega að læsingin hafi valdið slysinu,“ hefur blaðið eftir Bo Haaning, sem leiðir rannsókn nefndarinnar. „Þetta þýðir að við höfum fundið eitthvað sem gæti verið öryggisgalli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert