Evrópusambandið mun „grípa til frekari ráðstafana“ ef nýjar kosningar verða ekki haldnar í Venesúela á næstu dögum.
Þetta segir Federica Mogherini, utanríkismálastjóri hjá ESB.
Fjöldi þjóða hefur sett þrýsting á stjórnvöld í Venesúela eftir að Juan Guaido, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, lýsti sig starfandi forseta.
„Vegna þess að engin tilkynning hefur borist um nýjar kosningar á næstu dögum mun ESB grípa til frekari ráðstafana, þar á meðal þeirra sem tengjast viðurkenningu valdhafa landsins,“ segir í yfirlýsingu frá Mogherini.
Spánn, Frakkland, Þýskaland, Portúgal og Bretland gáfu í dag Nicolas Maduro, forseta Venesúela, átta daga til að efna til nýrra kosninga. Ef ekki myndu þjóðirnar viðurkenna Guaido sem forseta. Ríkisstjórn Maduro hefur verið mótmælt harðlega að undanförnu.
Utanríkisráðherra Venesúela hefur hafnað þeim afarkostum sem Evrópuríki hafa sett þjóðinni. „Enginn mun setja okkur afarkosti eða segja okkur hvort kosningar verða haldnar eða ekki,“ sagði Jorge Arreaza, utanríkisráðherra Venesúela.
„Hvernig er hægt að setja fullvalda ríki afarkosti?“ spurði hann.
Bandaríkin og fjöldi suður-amerískra þjóða hafa þegar viðurkennt Guaido sem bráðabirgðaforseta landsins.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hvatti í dag allar þjóðir heims til að hætta viðskiptum við ríkisstjórn Maduro og hvatti hann þær einnig til að viðurkenna Guaido sem bráðabirgðaforseta.
Þessu greindi hann frá á fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.