Óttast er að fjöldi fólks hafi farist er stífla brast í járngrýtisnámu í Minas Gerais-fylki í Brasilíu í gær með þeim afleiðingum þykk leðja flæddi yfir nálægar sveitir. Allt að 300 manns er nú saknað að sögn brasilískra yfirvalda, en leðjuflóðið fór m.a. yfir matsal námavinnslunnar þar sem hundruð starfsmanna voru að borða hádegismat er stíflan brast. Hún var notuð til að geyma botnfall úr Feijão-járngrýtisnámunni.
BBC segir björgunarsveitir nú nota þungavinnuvélar við leit sína, en fylkisstjóri Minas Gerais, Romeu Zema, hefur sagt litla von um að fólk finnist enn á lífi í leðjunni. Staðfest hefur verið að a.m.k. níu séu látnir.
Ekki liggur fyrir hvers vegna stíflan brast, en hún var í eigu Vale, sem er stærsta námafyrirtæki Brasilíu. Rúm þrjú ár eru nú frá því að önnur stífla í eigu Vale brast og var sú einnig í Minas Gerais fylkinu. Þá létust 19 manns og er atvikið talið versta umhverfisslys sem orðið hefur í sögu Brasilíu.
Brasilískir fjölmiðlar hafa birt myndir af leðjuflóðinu þar sem það flæðir yfir vegi, akra og bóndabæi þar sem margir starfsmanna námunnar búa. Einnig sést hvernig flóðið eyðileggur bæði hús og byggingar sem á vegi þess verður.
Tugir manna sem voru í sjálfheldu af völdum leðjuflóðsins voru fluttir á brott með þyrlum, þar sem flóðið eyðilagði vegi á svæðinu. Fjöldi annarra íbúa á svæðinu var einnig fluttur á brott í öryggisskyni.
„Ég er áhyggjufullur og vil fá fréttir,“ hefur BBC eftir Helton Pereira sem beið fyrir utan sjúkrahús í nágrannaborginni Belo Horizonte, en kona hans og systir störfuði í mötuneyti námunnar.
Hundrað slökkviliðsmenn leita nú þeirra sem saknað er og búist er við að 100 til viðbótar bætist í leitarhópinn í dag. „Hér eftir er vonin dauf og mestar líkur á að við finnum aðeins lík,“ sagði Zema.