Saka Michael Jackson um barnaníð

Michael Jackson er sakaður um barnaníð í nýrri heimildarmynd, Leaving …
Michael Jackson er sakaður um barnaníð í nýrri heimildarmynd, Leaving Neverland, sem frumsýnd var í gær.

Alvarlegar ásakanir um barnaníð Michael Jackson koma fram í nýrri heimildarmynd, Leaving Neverland, sem frumsýnd var á Sundance-kvikmyndahátíðinni í gær. Í myndinni er sagt frá þeim Wade Robson og Jimmy Safechuck sem kynntust Jackson þegar hann var á tindi frægðar sinnar en þeir bara börn.

„Það þarf aðeins tveggja mínútna áhorf á fjögurra tíma langa heimildarmynd, Leaving Neverland, til þess að átta sig á því að arfleið Michael Jackson verður aldrei söm,“ skrifar Benjamin Lee, blaðamaður Guardian, um myndina.

Robson kynntist Michael Jacksons þegar hann tók þátt í danskeppni fimm ára gamall og segir hann að eftir tveggja ára kynni hefði Jackson brotið á honum. Safechuck var átta ára þegar hann kynntist Jackson en þá lék hann á móti stórstjörnunni í Pepsi-auglýsingu. Í myndinni greinir hann frá því að Jackson hefði brotið á honum eftir nokkurra mánaða kynni.

Á meðal þess sem fram kemur í myndinni og Variety greinir frá á Jackson að hafa haldið þykjustubrúðkaup með Safechuck og gefið Robson faxtæki til að geta sent honum ástarbréf. Þá kemur fram að á búgarði Jacksons, Neverland, hafi verið að finna rúm og afskekkt herbergi út um allt þar sem Safechuck segir hann hafa misnotað sig. Þar á meðal læstan klefa í kvikmyndasal hússins með skyggðri rúðu þannig að aðrir í kvikmyndasalnum gátu ekki séð hvað fór fram innan klefans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka