Spánn gefur Maduro átta daga frest

Pedro Sanchez forsætisráðherra Spánar segir Maduro fá átta daga frest …
Pedro Sanchez forsætisráðherra Spánar segir Maduro fá átta daga frest til að boða til kosninga. AFP

Ríkisstjórn Spánar lýsti því yfir í dag að hún veiti Nicolas Maduro, forseta Venesúela, átta daga frest til þess að boða til kosninga í landinu. Ellegar muni þau viðurkenna Juan Guaidó, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Venesúela, sem forseta landsins.

„Verði ekki boðað til frjálsra, sanngjarnra og gagnsærra kosninga í Venesúela innan átta daga mun Spánn viðurkenna Juan Guaidó sem forseta Venesúela, sagði Pedro Sanchez forsætisráðherra Spánar í sjónvarpsávarpi.

AFP-fréttaveitan segir yfirlýsingu Sanchez vera þá berorðustu sem ESB-ríki hafi til þessa sent frá sér varðandi stjórnarkreppuna í Venesúela, en Venesúela er fyrrverandi spænsk nýlenda.

Guaido, lýsti sig starfandi forseta landsins á mótmælafundi í vikunni. Er hann að reyna að fá Maduro til að segja af sér embætti, en forsetakosningar sem haldnar voru í landinu síðasta sumar þykja mjög umdeildar.

Guaidó hafnaði í gær boði Maduros um viðræður og hvatti þess í stað til þess að „meiri háttar mótmælaganga“ yrði farin.

Bandaríkin, Kanada, Brasilía og Argentína eru meðal þeirra ríkja sem þegar hafa lýst yfir stuðningi við Guaidó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert