Herforingi snýr baki við Maduro

Juan Guaido, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, lýsti því yfir í vikunni að …
Juan Guaido, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, lýsti því yfir í vikunni að hann væri réttur forseti landsins. AFP

José Luis Silva, hátt settur yfirmaður hersins í Venesúela, hefur snúið baki við Nicolás Maduro, forseta landsins, og lýst yfir stuðningi við Juan Guaidó, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem réttmætan forseta Venesúela. 

Guaidó lýsti því yfir á miðvikudag að hann væri starfandi forseti landsins, og hafa margar þjóðir, þar á meðal Bandaríkin, lýst yfir stuðningi við hann. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands, sagði t.d. í samtali við mbl.is í gær, að ís­lensk stjórn­völd myndu gera það sem í þeirra valdi standi til þess að vilji venesú­elsku þjóðar­inn­ar nái fram að ganga og úti­lok­aði ekki að viðskipta­sam­bandi Íslands við rík­is­stjórn Maduro yrði slitið.

Maduro sakar Guaidó um að gera tilraun til valdaráns í landinu og sleit öllum samskiptum við Bandaríkin. 

Fyrr í þessum mánuði sór Maduro embættiseið er hann hóf sitt annað kjörtímabil sem forseti landsins. Forsetakosningarnar hafa sætt mikilli gagnrýni, en stjórnarandstæðingar sniðgengu kosningarnar og ásakanir hafa komið fram um kosningasvindl sem leiddi til fjölmennra mótmæla gegn Maduro.

Tugþúsundir hafa mótmælt Maduro en hann hefur notið stuðnings hersins hingað til. 

Herinn og öryggissveitir landsins eru sagðar leika lykilhlutverk í því ástandi sem hefur skapast, og Guaidó hefur beðið þá um að standa með venesúelsku þjóðinni, að því er segir á vef BBC. 

Í myndskeiði, sem var tekið í sendiráði Venesúela í Washington, kallar Silva eftir frjálsum kosningum í heimalandinu og hvatti herinn til að viðurkenna Guaidó sem eina löglega forsta landsins. 

„Herinn leikur veigamikið hlutverk í því að endurreisa lýðræðið í landinu. Ég bið ykkur bræður um að ráðast ekki á fólkið okkar,“ sagði hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert