Gögnum um HIV-smitaða stolið

Samkvæmt yfirlýsingunni frá heilbrigðisráðuneytinu eru gögnin í vörslu Mikhy K. …
Samkvæmt yfirlýsingunni frá heilbrigðisráðuneytinu eru gögnin í vörslu Mikhy K. Farrera Brochez, Bandaríkjamanns sem bjó í Singapúr frá 2008 til 2016. AFP

Tölvuþrjótur hefur stolið og lekið trúnaðarupplýsingum um 14.200 einstaklinga með HIV í Singa­púr en flest fólkið er erlendir ríkisborgarar. Yfirvöld greindu frá málinu í dag en þetta er annað skiptið á innan við ári sem tölvuþrjótar fremja viðlíka árás í landinu.

Bandaríkjamaður, sem dæmdur hefur verið fyrir fjölda glæpa, er talinn hafa lekið gögnunum eftir að hafa orðið sér úti um þau frá maka sínum; lækni sem hafði aðgang að þeim sem eru skráðir með HIV.

Í fyrra stálu tölvuþrjótar per­sónu­upp­lýs­ing­um einn­ar og hálfr­ar millj­ón­ar íbúa í Singa­púr með því að brjót­ast inn í gagna­grunn heil­brigðis­yf­ir­valda rík­is­ins.

Fram kemur í yfirlýsingu frá heilbrigðisráðuneyti Singapúr að einstaklingur sé með gögn sem tengjast 14.200 HIV-smituðum. Þar má meðal annars finna nöfn smitaðra, niðurstöður úr HIV-prófum og fleiri læknisfræðileg gögn.

Aðgangi að upplýsingunum hefur verið lokað en þær eru þó enn í höndum þess sem lak þeim. Ráðuneytið varar við því að hægt sé að afhjúpa þær aftur.

Samkvæmt yfirlýsingunni frá heilbrigðisráðuneytinu eru gögnin í vörslu Mikhy K. Farrera Brochez, Bandaríkjamanns sem bjó í Singapúr frá 2008 til 2016. Hann var dæmdur fyrir svik og önnur brot í mars 2017 og var vísað úr landi eftir að hann sat af sér dóminn.

Brochez er ekki í landinu og yfirvöld hafa bætt því við að þau leiti aðstoðar annarra landa vegna málsins. Ler Teck Siang, fyrrverandi eiginmaður Brochez, var dæmdur í tveggja ára fangelsi í fyrra fyrir að hafa aðstoðað Brochez við brot sín. Hann hefur áfrýjað.

Stjórn­völd í Singa­púr hafa áður varað við tölvu­árás­um af þessu tagi og segj­ast hafa verið skot­spónn tölvuþrjóta á und­an­förn­um árum. Brugðist hef­ur verið við því með hert­um ör­ygg­is­ráðstöf­un­um í ráðuneyt­um lands­ins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert