Námurisinn hættir við allar arðgreiðslur

Milljónir tonna af eitraðri leðju streymdu fram yfir gróið svæðið …
Milljónir tonna af eitraðri leðju streymdu fram yfir gróið svæðið er stíflan brast á föstudag. AFP

Brasílíska námufyrirtækið Vale tilkynnti í dag að það myndi ekki greiða hluthöfum arð og að fallið yrði frá öllum árangurstengdum greiðslum til yfirmanna, eftir að stífla fyrirtækisins brast með þeim afleiðingum að tugir manna létust og hundraða er enn saknað.

Samkvæmt frétt AFP höfðu 58 fundist látin og 305 var enn saknað, seint í gærdag.

Orðspor fyrirtækisins, sem er það stærsta í heiminum á sviði járngrýtisvinnslu, hefur beðið mikinn hnekki vegna þessara hörmulegu atburða, en þetta er annað skipti á einungis rúmum þremur árum sem stífla í eigu Vale brestur. Báðar tengjast stíflurnar námustarfsemi fyrirtækisins í suðausturhluta Brasilíu.

Hlutabréfaverð lækkar um 20%

Ákvörðunin um að greiða hluthöfum ekki arð var tekin á neyðarfundi hjá stjórn fyrirtækisins í gær, en brasilísk yfirvöld hafa ákveðið að frysta eigu námufélagsins að andvirði 360 milljarða íslenskra króna, til þess að dekka þær skaðabætur sem fyrirtækið þarf líklega að greiða.

Hlutabréf í Vale tóku dýfu í morgun í kauphöllinni í Sao Paulo og er verð þeirra nú um 20% lægra en það var er markaðir lokuðu fyrir helgi, en einnig lækkuðu þau umtalsvert í kauphöllinni í New York strax á föstudag.  

Björgunarmenn leita að líkum í leðjuflóðinu.
Björgunarmenn leita að líkum í leðjuflóðinu. AFP

Flestir látinna voru starfsmenn Vale

Flóðbylgja af eitraðri leðju braust fram í grennd við námuna er stíflan brast á föstudaginn og sem áður segir hafa 58 fundist látin og 305 er enn saknað. Dvínandi líkur eru á því að einhverjir finnist á lífi, en mikill meirihluti þeirra sem urðu fyrir flóðbylgjunni voru starfsmenn fyrirtækisins.

Margir þeirra voru í hádegismat á svæðinu er stíflan brast, en viðbragðsaðilar hafa einnig greint frá því að rúta með nokkrum fjölda starfsmanna hafi fundist grafin í leðjunni, sem verður til við námuvinnsluna. Allir um borð voru látnir.

Stíflan sem brast var byggð árið 1976 og til stóð til að taka hana úr notkun á næstunni. Þýskt matsfyrirtæki, Tuev Sued, gerði úttekt á burðarþoli stíflunnar fyrir fjórum mánuðum og þá stóðst hún prófið. Það hefur matsfyrirtækið staðfest.

Í gær var stórt svæði í kringum aðra stíflu í eigu fyrirtækisins rýmt, vegna ótta um að hún myndi sömuleiðis bresta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert