„Svona virkar réttarríki ekki“

John Christian Elden, verjandi Eirik Jensens, við dómsuppkvaðninguna í héraðsdómi …
John Christian Elden, verjandi Eirik Jensens, við dómsuppkvaðninguna í héraðsdómi 18. september 2017. Fjær ræða fréttamenn við hasskónginn Gjermund Cappelen sem hlaut 15 ára dóm í málinu. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Þarna segja þrír löglærðir einstaklingar bókstaflega „Þetta kunnum við betur en þið,“ og traðka þar með á valdi þjóðarinnar til að dæma í málum meðbræðra sinna. Svona virkar réttarríki ekki sem á að eiga rætur sínar hjá þjóðinni og vera fyrir þjóðina.“

Þetta sagði John Christian Elden, verjandi Eirik Jensens, fyrrverandi yfirlögregluþjóns í Ósló, í samtali við mbl.is nú síðdegis, þegar hann náði andanum eftir að hafa lesið Lögmannsrétti Borgarþings pistilinn við norska ríkisútvarpið NRK skömmu áður. Vísar Elden í máli sínu til úrskurðarorða Kristel Heyerdahl dómsformanns og meðdómenda hennar við lögmannsréttinn klukkan 14 í dag, þar sem dómurinn vék til hliðar sýknuúrskurði kviðdómenda í málinu, síðasta kviðdóms Noregs.

Eins og mbl.is greindi frá í dag vildi kviðdómur, eftir tæplega viku umþóttunartíma, sakfella Jensen fyrir spillingu, hverrar refsirammi er tíu ár, en sýkna fyrir hlutdeild í innflutningi á 14 tonnum af hassi, brot sem Jensen hafði áður hlotið 21 árs dóm fyrir í héraðsdómi haustið 2017.

„Það gleður mig að við fengum meðbyr kviðdómenda, en að sama skapi er mér mjög brugðið yfir að þeir löglærðu gátu ekki fallist á þá niðurstöðu,“ segir Elden sem hefur borið hitann og þungann af málsvörn yfirlögregluþjónsins fyrrverandi gegnum málaferli sem staðið hafa yfir á tveimur dómstigum frá vorinu 2017, en mál Jensens og Cappelens teygir anga sína þó mun lengra inn í fortíðina, allt til ársins 1993.

Er hægt að treysta stórglæpamanni sem höfuðvitni?

En hvers vegna hefði lögmannsrétturinn átt að fallast á sýknudóm yfir Jensen í máli þar sem sönnunargögnin gegn honum telja á sextánda hundrað tölvupósta og SMS-skilaboð milli þeirra félaga, hans og Cappelens, og vitnisburður hás hlutfalls hátt í 200 vitna er í besta falli óvilhallur Jensen og í versta falli honum í svartasta óhag?

„Í þessu máli er engum beinhörðum sönnunargögnum til að dreifa,“ útskýrir Elden. „Spurningin er hvort hægt sé að treysta á stórglæpamann á sviði hasssmygls [n. en storkriminell hasjsmugler] sem höfuðvitni í málinu. Í slíku tilfelli er það auðvitað langeðlilegasta niðurstaða kviðdóms að sýkna lögreglumanninn,“ segir Elden um skjólstæðing sinn sem nú veit enn síður en áður hvað bíður hans – og hvenær.

Elden segist munu vísa úrskurði Lögmannsréttar Borgarþings rakleiðis til Hæstaréttar, þar hafi slíkum úrskurðum áður verið snúið. Framhald málsins veltur á því hvort sú málaleitan lánist verjandanum og skjólstæðingi hans. Að öðrum kosti hefst rekstur málsins á nýjan leik fyrir lögmannsréttinum með tilheyrandi vitnaleiðslum og málflutningi en þar voru 77 dómþing háð frá ágústlokum í fyrra og þar til málið var lagt í hendur kviðdóms í síðustu viku.

Nú er því enn einu sinni svo komið að Eirik Jensen, 61 árs gamall fyrrverandi yfirlögregluþjónn í lögreglunni í Ósló, sakborningur í stærsta fíkniefna- og spillingarmáli Noregs fram á þennan dag, getur ekkert gert nema beðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert