„Við erum að reyna að standa við skuldbindingar okkar í samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um veru okkar í Evrópusambandinu,“ segir Tom Tugendhat, þingmaður Íhaldsflokksins og formaður utanríkismálanefndar breska þingsins, í samtali við mbl.is.
„Á sama tíma sjá til þess að brottför okkar verði með slíkum hætti að fyrirtæki og einstaklingar sem hafa byggt lífsviðurværi sitt á samningum sem ná allt að fjörutíu ár aftur í tímann verði ekki fyrir of miklu raski. Þetta er augljós áskorun,“ bætir hann við.
Samkvæmt dagskrá þingsins er gert ráð fyrir að greitt verði atkvæði í dag á breska þinginu um breytingartillögur að Brexit-samningi Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, og hugsanlega um samninginn í heild með þeim tillögum sem ef til vill verða samþykktar.
Stór hluti þeirra 19 tillagna sem liggja fyrir þinginu eru til þess fallnar að breyta samningnum í grundvallaratriðum að sögn þingmannsins. „Þá er þetta ekki lengur sami samningur,“ útskýrir Tugendhat.
„Áskorunin fyrir okkur í dag er að við verðum að muna að samskipti okkar til framtíðar verða að byggja á vináttu og stefna ber að því að næstu sjötíu ár verði líkari undanförnum sjötíu árum heldur en öðrum tímabilum sögunnar,“ útskýrir Tugendhat. „Satt að segja er það einmitt á þessu sviði sem Evrópusambandið og að einhverju leyti ríkisstjórnin hafa gert mistök, það er að nálgast viðræðurnar með þeim hætti að annar sigri en hinn tapar.“
„Staðreyndin er sú að annaðhvort sigra báðir aðilar ella tapa báðir. Þessar samningaviðræður eru ekki þannig gerðar að annar getur unnið, en hinn tapað,“ fullyrðir nefndarformaðurinn.
„Ef þetta er gert með réttum hætti munum við yfirgefa Evrópusambandið með mjúkri aðlögun að nýrri stöðu sem sjálfstætt ríki með mikil tengsl og gott samstarf við Evrópusambandið. Takist ekki að semja með réttum hætti mun það hafa slæm áhrif á viðskiptatengsl okkar við Evrópu sem hafa verið undirstaða velsældar okkar og hefur á sama tíma skipt Þýskalandi, Frakklandi og mörg önnur ríki verulegu máli. Hafa þarf í huga að viðskipti hafa í för með sér gagnkvæman ávinning.“
Tugendhat segir það ljóst að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu án samnings við Evrópusambandið sé einn þeirra möguleika sem liggja fyrir. „Ef ekkert breytist þá er það einmitt það sem gerist. Það sem mörg okkar vona er að við getum fengið samning sem hlýtur meirihluta í þinginu. Ef það gerist ekki eru valkostirnir annars vegar stefnubreyting sem getur falið í sér að framlengja gildistöku fimmtugustu greinar [grundvöllur úrsagnarinnar], hætta við fimmtugustu greinina eða jafnvel boða til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu eða þingkosninga. Gerist ekkert fyrrnefndra atriða munum við yfirgefa Evrópusambandið 29. mars samningslausir.“
„Af mörgum ástæðum tel ég ólíklegt að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin, jafnframt finnst mér það slæm hugmynd. Þá tel ég einnig að þingkosningar séu ekki líklegar á næstunni, aldrei segja aldrei, en það er ólíklegt. Á þessum grunni get ég ekki útilokað að við förum án samnings,“ segir nefndarformaðurinn sem tekur fram að hann sé ekki talsmaður slíkrar vegferðar.
„Það eru augljóslega margar áskoranir sem blasa við, ekki bara fyrir okkur, fyrir nágranna okkar líka og þau ríki sem við erum í miklum viðskiptum við. Afleiðingar þess að ganga úr Evrópusambandinu án samnings geta verið töluverðar, ekki síst fyrir Írland og jafnvel Ísland líka,“ segir Tugendhat sem bendir á að þótt viðskiptin við Ísland séu ekki þau fyrirferðarmestu geti áhrif á þau haft í för með sér afleiðingar.
Diane Abbott, þingmaður Verkamannaflokksins og skuggaráðherra innanríkismála, sagði nýverið að meðal skilyrða fyrir að flokkur hennar styðji útgöngusamning verði að vera ákvæði um veru Bretlands innan tollabandalags Evrópusambandsins. Er útilokað að slíkt myndi fá atkvæði þeirra þingmanna Íhaldsflokksins sem höfnuðu nýverið samningi May í þinginu?
„Ég held það fengi ekki atkvæði þeirra, en það eru til ýmsar leiðir að því að koma á aðlögunartíma vegna breyttra aðstæðna. Aðlögunarsamningur forsætisráðherra, samningurinn sem var felldur í þinginu nýlega, felur í sér áframhaldandi veru í tollabandalaginu í einhvern tíma sem er einmitt það sem umdeildi varnaglinn (e. backstop) snýst um. Þannig að það að hafa einhvers konar tollabandalag er gerlegt, en til lengri tíma væri það furðulegt ef ríki á stærð við Bretland hefði ekki stjórn á eigin viðskiptastefnu án fulltrúa innan bandalagsins sem stjórnar henni,“ segir Tugendhat.
Blaðamaður spyr hvort hann sjái einhverja leið fram á við miðað við þá stöðu sem upp er komin í Brexit-málinu. „Bretar hafa rætt í um þrjú þúsund ár hver stefna okkar eigi að vera gagnvart Evrópu og oft höfum við haft friðsæl og arðbær samskipti, en stundum hafa samskiptin ekki verið á eins jákvæðum nótum.“
„Til að mynda þegar forfeður ykkar Íslendinga komu hingað á öldum áður varð vægast sagt ákveðinn núningur milli manna, til eru ritaðar heimildir um miklar umræður um hvernig ætti að hátta samskiptum við þessa nýju nágranna. Þannig að umræðan um hvernig samskiptum okkar við Evrópu verður háttað í framtíðinni er ekki ný og við munum líklega ræða þetta næstu þrjú þúsund árin.“
„Við erum að ganga í gegnum erfiða tíma,“ segir Tugendhat spurður um stöðu Breta í alþjóðastjórnmálunum þegar litið er til stórveldanna Rússlands og Kína.
„Samskipti okkar við Rússa eru ekki á góðum stað eins og flestir vita,“ segir hann og vísar til þess að reynt hafi verið að ráða Skripal-feðginin af dögum. „Rússneskt fyrirtæki hefur nú gefið út borðspil um eitranir í Salisbury sem heitir Novichok.“
„Rússland er veikburða ríki undir einræði glæpamanna sem hefur rænt og misþyrmt rússneskum borgurum síðustu fimmtán ár. Þetta eru þjófar. Þetta er vissulega erfitt viðfangsefni, en þetta mun versna áður en það verður betra þar sem veik ríki eiga það til að slá frá sér til þess draga athyglina frá eigin veikleika,“ fullyrðir Tugendhat.
Hann segir jafnframt að Rússar séu stöðugt að prófa viðbragðsgetu NATO og að Íslendingar séu vel meðvitaðir um það sem NATO-ríki. Hins vegar sé ljóst að Rússland er ekki mikil hernaðarleg ógn þegar kemur að öryggi ríkisins. Rússar eru frekar ógn hvað upplýsingastríð varðar eins og þekkt hefur orðið víða um heiminn, bætir hann við.