Hæstiréttur Pakistans hafnaði í dag beiðni um að endurskoða fyrri dóm sem sýknaði Asia Bibi af ákæru um guðlast. Þetta þýðir að hún getur yfirgefið landið en Bibi var dæmd til dauða í undirrétti.
Forseti hæstaréttar, Asif Saeed Khosa, segir að endurmat á fyrri dómi sýni að hann sé réttmætur. Hæstiréttur sýknaði Bibi, fimm barna móður, í október en þá hafði hún verið á dauðadeild frá árinu 2010 en það ár tók meðal annars Benedikt XVI páfi þátt í að krefjast lausar hennar. Árið 2015 átti dóttir Bibi fund með Frans páfa sem einnig fór fram á að hún yrði látin laus. Bibi, sem er kristin, var dæmd til dauða fyrir guðlast þegar hún lenti í rifrildi við múslimska konu vegna vatnsskálar.
Mjög er óttast um líf hennar og hvetja mannréttindasamtök til þess að hún fái að yfirgefa Pakistan en íslamistar krefjast þess að hún verði tekin af lífi. Bibi hefur verið í felum frá því hæstiréttur dæmdi í máli hennar. Talið er fullvíst að hún sæki um hæli annaðhvort í Evrópu eða Norður-Ameríku og óstaðfestar heimildir herma að börn hennar séu þegar komin til Kanada.
Lögmaður Bibi, Saif-ul-Mulook, ýjaði að því í dag að hún myndi yfirgefa landið strax í dag þegar hann ræddi við fjölmiðla. „Ég held að hún sé hér (í Pakistan) en hvar hún verður í kvöld veit ég ekki.“
Hann segir að öfgasinnar hafi hótað því að taka hana af lífi sama hver niðurstaða hæstaréttar er og því sé mikilvægt að hún yfirgefi landið.
„Hún ætti núna að geta sameinast fjölskyldu sinni og komist í öruggt skjól í ríki að eigin vali,“ segir í yfirlýsingu Amnesty International í kjölfar niðurstöðu hæstaréttar í dag.