Tillaga Graham Brady, þingmanns Íhaldsflokksins, um breyttan útgöngusamning úr Evrópusambandinu þar sem breytingar verða gerðar á svokölluðu backstop-ákvæði, var samþykktur á breska þinginu í kvöld með 16 atkvæða mun. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hvatti þingmenn fyrr í dag til að styðja tillöguna.
Ákvæðið er líklega umdeildasti hluti Brexit-samningsins og gegndi stóru hlutverki þegar samningurinn var felldur á breska þinginu um miðjan janúar.
Í ákvæðinu felst að ef enginn viðskiptasamingur liggur fyrir tveimur árum eftir útgöngu Breta verði Bretar áfram í tollabandalagi ESB þar til bæði stjórnvöld í Bretlandi og í ESB komast að samkomulagi um annað.
Þó að tillagan hafi verið samþykkt á þinginu er ekki útlit fyrir að leiðtogar ESB séu tilbúnir til að endurskoða útgöngusamninginn. May ræddi við leiðtoga ESB í dag, þar á meðal Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar bandalagsins, um mögulegar breytingar á samningnum en án árangurs. Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði eftir að tillagan var samþykkt í kvöld að ekki komi til greina að semja um nýjan útgöngusamning.
Umræður um Brexit-samninginn standa enn yfir á breska þinginu og kosið er um fleiri tillögur sem snúa að útgöngunni, með eða án samnings. Bretar munu að öllu óbreyttu yfirgefa Evrópusambandið 29. mars, eftir slétta tvo mánuði.