Funda um breyttan Brexit-samning

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, freistar þess að ræða við leiðtoga …
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, freistar þess að ræða við leiðtoga ESB um breyttan Brexit-samning áður en Bretar ganga úr sambandinu í lok mars. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, funda í dag um mögulegar leiðir til að koma breytingartillögum inn í Brexit-samninginn.

Meirihluti þingmanna samþykkti í gær breytingartillögu Graham Brady, þingmanns Íhaldsflokksins, á útgöngusamningnum. Breytingarnar snúast að mestu leyti um svokallað backstop-ákvæði, þ.e. heimild til að koma á gæslu að nýju á landamærum Norður-Írlands og Írlands.

Markmiðið með fundi May og Corbyn er að finna út hverju þingmenn vilja nákvæmlega breyta svo samningurinn verði samþykktur. May heldur svo til Brussel á næstu dögum til fundar við leiðtoga Evrópusambandsins en útlit er fyrir að þar mæti hún mótstöðu þar sem skilaboðin þaðan hafa verið að ekki sé mögulegt að endursemja um Brexit-samninginn, ekki síst frá Donald Tusk, for­seta leiðtogaráðs ESB.

Tusk segist að vísu vera tilbúinn til að taka til endurskoðunar póli­tíska yf­ir­lýs­ingu sem fjall­ar um það hvernig sam­skipt­um Breta og ESB verði mögu­lega hagað í framtíðinni. Þar er m.a. farið yfir hvernig viðskipt­um verður háttað sem og ör­ygg­is­málum. Innifalið í því væri að fresta útgöngu Breta úr ESB um ákveðinn tíma, en að öllu óbreyttu munu Bretar yfirgefa ESB 29. mars næstkomandi.

Frétt BBC

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, á breska þinginu.
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, á breska þinginu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert