Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, og Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, funda í dag um mögulegar leiðir til að koma breytingartillögum inn í Brexit-samninginn.
Meirihluti þingmanna samþykkti í gær breytingartillögu Graham Brady, þingmanns Íhaldsflokksins, á útgöngusamningnum. Breytingarnar snúast að mestu leyti um svokallað backstop-ákvæði, þ.e. heimild til að koma á gæslu að nýju á landamærum Norður-Írlands og Írlands.
Markmiðið með fundi May og Corbyn er að finna út hverju þingmenn vilja nákvæmlega breyta svo samningurinn verði samþykktur. May heldur svo til Brussel á næstu dögum til fundar við leiðtoga Evrópusambandsins en útlit er fyrir að þar mæti hún mótstöðu þar sem skilaboðin þaðan hafa verið að ekki sé mögulegt að endursemja um Brexit-samninginn, ekki síst frá Donald Tusk, forseta leiðtogaráðs ESB.
Tusk segist að vísu vera tilbúinn til að taka til endurskoðunar pólitíska yfirlýsingu sem fjallar um það hvernig samskiptum Breta og ESB verði mögulega hagað í framtíðinni. Þar er m.a. farið yfir hvernig viðskiptum verður háttað sem og öryggismálum. Innifalið í því væri að fresta útgöngu Breta úr ESB um ákveðinn tíma, en að öllu óbreyttu munu Bretar yfirgefa ESB 29. mars næstkomandi.