Sá mikli fimbulkuldi sem nú er í Miðvesturríkjum Bandaríkjanna hefur valdið kuldapollum á sumum svæðum sem veðurfræðingar telja ólíklegt að sjáist nema einu sinni á mannsaldri.
Búist er við að næstu daga náið frostið allt að -30° í Miðvesturríkjunum, en með vindkælingu jafngildir það því að frostið fari niður í -50 °C. Vitað er til þess að a.m.k. fimm manns hafi farist af völdum kuldans.
Búist er við að snjóa kunni svo sunnarlega sem í Alabama og Georgíu, en neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Wisconsin, Michigan og Illinois, sem og í ríkjum á borð við Alabama og Mississippi þar sem veðurfar er venjulega öllu mildara.
„Þetta kann að eiga eftir að rata í sögubækurnar,“ hefur BBC eftir Ricky Castro hjá bandarísku veðurstofunni.
Hundruðum skóla hefur verið lokað vegna kuldanna og sömuleiðis hefur hundruðum flugferða verið aflýst. Hefur veðurstofan þá varað við því að fólk geti fengið kal af einungis tíu mínútna útiveru.
Íbúar Chicago, sem þó eru ekki óvanir kulda, hafa verið varaðir við að búast við enn meiri og hættulegri kulda en venjulega.
Rahm Emanuel, borgarstjóri Chicago, hefur hvatt fólk til að vera ekki utandyra að ástæðulausu og hafa borgaryfirvöld komið upp tugum upphitaðra skýla fyrir þá 80.000 heimilislausra sem eru í borginni. Þá hefur lögregla greint frá því að óvenjumörgum dýrum yfirhöfnum hafi verið rænt af gangandi vegfarendum í kuldunum undanfarna daga.
Veðurfræðingar hafa varað fólk í Iowa-ríki í Bandaríkjunum við því að „draga andann djúpt“ og tala sem minnst á meðan það er utandyra. Þá hafa dýraverndarsamtök hvatt fólk til að koma dýrum á hús.
Segir Reuters-fréttastofan bændur í Miðvesturríkjunum hafa gripið til ýmissa ráðstafana til að verja búfénað sinn og m.a. hafi einhverjir þeirra búið til snjóhús fyrir hænsnin.
Sumir sjá þá skoplegu hliðina á kuldanum og þannig birtu lögregluyfirvöld í McLean, sem er um 240 km frá Chicago, frétt af því á Facebook-síðu sinni að vegna kuldanna væri búið að handtaka ísprinsessuna Elsu úr Disney-teiknimyndinni Frozen.
Donald Trump Bandaríkjaforseti, sem hefur dregið tilvist loftslagsbreytinga af mannavöldum í efa, tjáði sig líkt og svo oft áður á Twitter um kuldana. „Hvað í fjandanum er að gerast varðandi hlýnun jarðar?“ skrifaði Trump. „Komdu strax aftur. Við þurfum á þér að halda!“
Bandaríska haf- og loftslagsrannsóknarstofnunin var fljót að bregðast við þessum orðum forsetans með færslu þar sem sagt er að vetrarveður sé engin sönnun þess að hnattræn hlýnun sé ekki raunveruleg.