Hétu því að eyða kjarnorkuvinnslustöðvum

Stephen Biegun, sérstakur sendifulltrúi Bandaríkjanna í málefnum Norður-Kóreu.
Stephen Biegun, sérstakur sendifulltrúi Bandaríkjanna í málefnum Norður-Kóreu. AFP

Ráðamenn í Norður-Kóreu hafa heitið því að eyða öllum þeim vinnslustöðvum sem notaðar eru til að auðga úran og önnur efni til kjarnavopnagerðar. Þetta segir Stephen Biegun, sérstakur sendifulltrúi Bandaríkjanna í málefnum Norður-Kóreu.

BBC hefur eftir Biegun að Norður-Kóreu hafi heitið Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, þessu er hann kom í heimsókn til Norður-Kóreu í október. Norður-Kórea verði ennfremur afhenda fullgerða skrá yfir allar kjarnorku eigur sínar áður en gengið verður frá samningum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur áður haldið því fram að „verulegur árangur“ hafi náðst í viðræðum Bandaríkjanna og Norður-Kóreu um afvopnavæðingu kjarnavopna á Kóreuskaga.

Trump greindi raunar frá því í gær að hann muni bráðlega tilkynna dagsetningu fyrir væntanlega heimsókn Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu til Bandaríkjanna.

Leiðtogarnir funduðu í Singapore á síðasta ári og undirrituðu þá bjartsýnislega orðaða, en frekar óljósa, yfirlýsingu um stuðning sinn við afvopnavæðinguna. Lítið hefur hins vegar gerst í þeim málum síðan þá.

Ráðamenn í Norður-Kóreu hafa jafnan haldið því fram að kjarnavopnaáætlunin sé nauðsynleg til að tryggja öryggi ríkisins og að það muni aldrei einhliða gefa vopnin upp, nema ríkinu stafi ekki lengur ógn af kjarnorkuvopnaeign Bandaríkjanna.

„Við ætlum ekki að ráðast inn í Norður-Kóreu. Við stefnum ekki á að steypa þar stjórninni,“ sagði Biegun á ræðu sem hann flutti í Stanford háskóla í Kaliforníu. Biegun, sem tók við sendifulltrúastarfinu fyrir fimm mánuðum, sagði Trump þá jafnframt vera „tilbúinn að binda endi á þetta stríð“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert