„Vopnuð nýju umboði og hugmyndum“

May segist ætla að mæta til Brussel vopnuð nýjum hugmyndum.
May segist ætla að mæta til Brussel vopnuð nýjum hugmyndum. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, skrifaði í The Sunday Telegraph-blað dagsins að hún kæmi að samningaborðinu „vopnuð nýju umboði og hugmyndum“ þegar hún hittir samningafólk Evrópusambandsins (ESB) vegna Brexit-samnings hennar. 

Ráðamenn ESB hafa lagt á það áherslu að ekki verði endursamið um Brexit-samninginn. 

Ætlar að losna við ákvæðið

Í tímaritið skrifaði May að hún myndi „berjast fyrir Bretland og N-Írland“ í tilraun til að losna við hið óvinsæla backstop-ákvæði svokallaða. Í ákvæðinu felst að ef enginn viðskiptasamningur liggur fyrir tveimur árum eftir útgöngu Breta verði Bretar áfram í tollabandalagi ESB þar til bæði stjórnvöld í Bretlandi og ESB komast að samkomulagi um annað.

Þingið kaus í síðustu viku með því að senda May aftur til Brussel til að endursemja um ákvæðið, sem gefur tilefni til að ætla að samningurinn yrði þannig samþykktur, en hann var felldur um miðjan síðasta mánuð með 432 atkvæðum gegn 202.

„Ég er nú sannfærð um að það sé leið sem getur tryggt meirihluta í fulltrúadeild þingsins með því að yfirgefa ESB með samning,“ skrifaði May.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka