Tala látinna eftir að stífla brast í járngrýtisnámu í suðausturhluta Brasilíu 25. janúar heldur áfram að hækka. Yfirvöld hafa staðfest að 134 eru látnir og 199 er enn saknað.
Leit stendur enn yfir í þykkum aurnum sem flæddi yfir nálægar sveitir þegar stíflan brast. Slökkviliðsmenn ásamt fleiri björgunarmönnum njóta aðstoðar leitarhunda í björgunaraðgerðum, fyrst og fremst til að þefa uppi líkamsleifar en samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum í Minas Gerais-fylki er borin von að finna einhvern á lífi. Nánast öruggt er talið að allir sem urðu undir aurnum voru starfsmenn við námuna.
Námufyrirtækið Vale ber ábyrgð á stíflunni og er þetta önnur stíflan á vegum fyrirtækisins sem brestur á þremur árum. Fimm hafa verið handteknir vegna málsins, þrír hinna handteknu eru starfsmenn Vale, en tveir eru verkfræðingar sem störfuðu fyrir námafyrirtækið.
Myndskeið af því þegar stíflan brast hafa verið birt og þar má greinilega sjá hversu öflugt flóðið var sem fylgdi í kjölfarið. Rétt er að vara við myndskeiðinu hér að neðan: