Stjórnvöld í Rússlandi fordæmdu í dag það sem þau segja vera afskipti nokkurra Evrópuríkja af innanlandsmálum Venesúela.
Spánn og Bretland bættust í morgun í hóp þeirra þjóða sem viðurkenna Juan Guaidó sem forseta Venesúela. Fyrir hafa sjö önnur ríki Evrópusambandsins viðurkennt Guaidó sem forseta, auk Bandaríkjanna, Kanada, Ástralíu og nokkurra ríkja Suður-Ameríku.
Ríki ESB gáfu Nicolas Maduro, forseta Venesúela, frest þar til í gærkvöldi til að boða til nýrra forsetakosninga en hann lýsti því yfir seint í gærkvöldi að hann myndi ekki láta undan þeim þrýstingi.
Sagði Dmitry Peskov, talsmaður rússnesku stjórnarinnar, þetta tilraun til að réttlæta valdarán og að um væri að ræða afskipti af innanríkismálum Venesúela.
Slík afskipti, sagði Peskov, gætu ekki leitt til friðsamlegrar, áhrifaríkrar og varanlegrar lausnar á vanda landsins.
Þá ítrekaði hann þá afstöðu Rússa að þeir einu sem leyst gætu vandann væru íbúar Venesúela.