Fjöldi Evrópuríkja, þeirra á meðal Ísland, hefur í dag lýst yfir stuðningi við venesúelska stjórnarandstöðuleiðtogann Juan Guaidó en ESB-ríki gáfu Nicolas Maduro, forseta Venesúela, frest til gærkvölds að boða til nýrra forsetakosninga. Maduro hafnaði þeirri kröfu og sagðist ekki ætla að láta undan þrýstingi Evrópusambandsríkjanna.
Fjöldamörg ríki hafa ýmist lýst yfir stuðningi við Guaidó eða Maduro í blóðugri baráttu um völd í landinu. Fordæmdu rússnesk stjórnvöld t.a.m. fyrr í dag afskipti Evrópusambandsríkja af innanríkismálum Venesúela.
Maduro fer með völd í helstu ríkisstofnunum Venesúela með stuðningi bandamanna sinna og skiptir þar her landsins mestu máli. Yfirmenn hjá hernum hafa lýst yfir stuðningi við Maduro en þó eru blikur á lofti. Yfirmaður flughers Venesúela viðurkenndi Guaidó sem forseta landsins í fyrradag.
Kína er stærsti lánveitandi Venesúela og segir í frétt AFP-fréttaveitunnar að lán Kínverja til Venesúela nemi um það bil 20 milljörðum Bandaríkjadala. Kínversk stjórnvöld hafa gagnrýnt afskipti ríkja sem hafa viðurkennt Guaidó sem forseta landsins.
Á eftir Kína er næststærsti lánveitandi Venesúela Rússland. Þarlend stjórnvöld hafa tekið í sama streng og Kínverjar og gagnrýnt utanaðkomandi afskipti af innanríkismálum Venesúela. Þá stóðu Rússar fyrir heræfingu í desember sl. í Caracas, höfuðborg Venesúela, en um hundrað rússneskir hermenn tóku þátt í æfingunni og tvær rússneskar sprengjuflugvélar.
Aðrir bandamenn Maduro eru Bólivía, Kúba, Íran, Mexíkó, Norður-Kórea, Tyrkland og Úrúgvæ. Af Evrópuríkjum er það aðeins vinstrisinnuð ríkisstjórn Grikklands sem styður Maduro.
Af bandamönnum Guaidó má fyrst nefna Bandaríkin en Donald Trump Bandaríkjaforseti var fljótur að lýsa yfir stuðningi við tilkall Guaidó til forsetastóls landsins.
Suður-Ameríkulöndin Argentína, Brasilía og Kólumbía fylgdu fast á hæla Bandaríkjanna og lýstu yfir stuðingi við Guaidó sem og Luis Alagro, framkvæmdastjóri OAS, Samtaka Ameríkuríkja.
Þá hafa Evrópuríkin Austurríki, Bretland, Danmörk, Finnland, Lettland, Litháen, Holland, Portúgal, Spánn, Svíþjóð og Ísland lýst yfir stuðningi við Guaidó í dag. Ástralía og Ísrael sömuleiðis.