Páfi: nunnur lengi sætt kynferðisofbeldi

Frans páfi blessar hér unga stúlku við messu í heimsókn …
Frans páfi blessar hér unga stúlku við messu í heimsókn sinni til Mið-Austurlanda. Ljósmynd/Vatíkanið

Biskupar og prestar kaþólsku kirkjunnar hafa misþyrmt nunnum kynferðislega og í að minnsta kosti einu tilfelli var þeim haldið föngnum sem kynlífsþrælum. Þetta sagði Frans páfi á fundi með fréttamönnum á ferð sinni um Mið-Austurlönd í gær. BBC greinir frá.

Sagði páfi forvera sinn, Benedikt páfa, hafa neyðst til að leysa upp kirkjusöfnuð þar sem nunnurnar sættu kynferðislegu ofbeldi af hálfu prestanna.

BBC segir talið að þetta sé í fyrsta skipti sem Frans páfi hafi viðurkennt að nunnur hafi sætt kynferðislegu ofbeldi af hálfu presta. Sagði páfi kaþólsku kirkjuna vita af vandamálinu og að verið sé að „vinna í því“.

„Það er vegferðin sem við höfum verið á,“ sagði hann.

„Benedikt páfi hafði hugrekkið til að leysa upp kvennasöfnuð vegna þess þrældóms sem konurnar sættu þar, jafnvel kynlífsþrælkunar, af hálfu prestanna og stofnandans.“

Alessandro Gisotti, hjá fjölmiðlaskrifstofu Vatíkansins, sagði CBS-sjónvarpsstöðinni síðar í gær að söfnuðurinn sem um ræðir hafi verið í Frakklandi.

Þá sagði Frans páfi kynferðislega misnotkun á nunnum vera viðvarandi vandamál, sem ætti sér þó aðallega stað í „vissum söfnuðum, aðallega nýjum söfnuðum“.

Samband kaþólskra nunna fordæmdi í nóvember á síðasta ári þá „þagnar- og leyndarmenningu“ sem kæmi í veg fyrir að þær tjáðu sig um málið. Stutt er þá síðan kvennatímarit Vatíkansins, Women Church World, fordæmdi misnotkunina og sagði að í sumum tilfellum neyddust nunnur til að láta eyða börnum presta, en fóstureyðing er bönnuð samkvæmt kaþólskri trú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert