Svaf 16 nætur við vínbúð

Bjørn Håvard Larsen vínáhugamaður í aðstöðu sinni fyrir utan Vinmonopolet …
Bjørn Håvard Larsen vínáhugamaður í aðstöðu sinni fyrir utan Vinmonopolet á Aker-bryggju þar sem hann dvaldi allan sólarhringinn 16 dægur þar til stundin langþráða rann upp í morgun, sala 2015-árgangs rauðvíns frá Búrgundarhéraðinu annálaða í Mið-Frakklandi. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Þetta er frábær en mjög lítill árgangur og vel þess virði að liggja 16 daga í biðröð,“ sagði norski vínáhugamaðurinn Bjørn Håvard Larsen í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í dag en þá hafði hann varið síðustu 16 sólarhringunum við innganginn að norsku áfengisútsölunni Vinmonopolet á Aker-bryggju í Ósló til að verða örugglega fyrstur inn þegar verslunin opnaði dyr sínar klukkan 10 í morgun.

Dagurinn í dag var nefnilega enginn venjulegur fimmtudagur í augum norsks vínáhugafólks en fyrsta fimmtudaginn í febrúar ár hvert tekur verslunin nýjasta framleiðsluárgang hinna heimsfrægu búrgundarvína í sölu, í þessu tilfelli árgang 2015 af rauðu.

Larsen segir þetta ótrúlega fágætan árgang og hafi annar eins gæðaárgangur ekki komið fram í mannsaldur. Vinmonopolet sjálft gerir þó vægari kröfur en Larsen og segir á heimasíðu sinni að síðast hafi komið fram stórkostlegur árgangur árið 2005 en hrein sprenging hafi hins vegar orðið með 1978-árganginum sem óvenjumikið hlýviðri og bestu aðstæður fyrir vínþrúgurnar gerðu að hreinu sælgæti.

Góð ullarföt og eitthvað vindþétt

„Það er um að gera að klæða sig í góð ullarföt og vera í einhverju vindþéttu líka, passa vel upp á fingurna og sitja svo bara í rólegheitum,“ var meðal heilræða Larsens þegar Sjónvarp Dagbladet (Dagbladet TV) tók hann tali í nokkuð heimilislegri aðstöðu hans þar sem hann sat allan sólarhringinn frá 22. janúar og þar til í morgun til að tryggja að hann yrði fyrstur inn þegar sala búrgundarvínanna hófst klukkan 10:00.

Þetta ætlunarverk tókst honum heldur betur, en fleiri vínunnendur höfðu bæst í hópinn á lokasprettinum og mátti sjá sófa og fleiri húsgögn prýða fjölfarna göngugötuna við Aker-bryggju á efsta degi. NRK var á staðnum í morgun og tók myndskeið af spenntum búrgundarkaupendum hlaupa inn í vínbúðina þar sem Larsen hleypti skeiði hörðu að þeim tegundum sem hann var löngu búinn að ákveða að næla í og gekk, þegar upp var staðið, alsæll með búrgundarvín fyrir 182.666 norskar krónur, rúmlega tvær og hálfa milljón íslenskar, út úr Vinmonopolet.

Larsen ræðir við fréttakonu TV2 um ástríðu sína í lífinu, …
Larsen ræðir við fréttakonu TV2 um ástríðu sína í lífinu, búrgundarvín, sem þessi hressi Norðlendingur veit bókstaflega allt um. Hann segir annan eins árgang og rautt 2015 ekki hafa komið um mannsaldur. Ljósmynd/Úr einkasafni

Larsen var býsna ánægður með sitt þegar mbl.is ræddi við hann í kvöld og fékk hjá honum myndirnar sem fylgja fréttinni. Þessi fjallhressi Norðlendingur frá Alsvåg í Vesterålen sagði kaup dagsins heldur betur hafa smakkast vel en hann hefur tekið þátt í búrgundarkapphlaupinu ár hvert frá 2007.

„Það var stórskemmtilegt í biðröðinni hjá okkur núna,“ sagði hann, en til mikils var að vinna fyrir sanna áhugamenn, 30.000 flöskur af 2015-víninu komu til Noregs og skiptust í 450 tegundir sem fóru í sölu í aðeins sjö útibúum Vinmonopolet. Dýrasta flaskan í boði bar verðmiða upp á 45.000 krónur, litlar 634.000 íslenskar, en það þykja víst engin ósköp í innsta hring norsks vínáhugafólks en þar er Bjørn Håvard Larsen sannarlega á heimavelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert