Unnusta Jamal Khashoggi vonar að þrýstingur frá Bandaríkjaþingi muni hvetja ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta til að taka með aukinni festu á morðinu á sádiarabíska blaðamanninum.
Khashoggi, sem skrifaði fyrir Washington Post, var myrtur 2. október af mönnum frá Sádi-Arabíu þegar hann var staddur í sendiráði ríkisins í Istanbúl í Tyrklandi. Þangað ætlaði hann að sækja skjöl vegna fyrirhugaðs brúðkaups hans og Hatice Cengiz.
Á blaðamannafundi í Istanbúl sem var haldinn vegna nýrrar bókar um líf Khashoggi, sagðist Chengiz, sem er tyrknesk, tilbúin til að funda með Trump ef ákveðin skilyrði verða uppfyllt. Í desember hafnaði hún fundarboði hans.
Bókin nefnist „Jamal Khashoggi: líf hans, barátta hans, leyndarmál hans“ og var hún samin af tveimur tyrkneskum blaðamönnum.
Chengiz sagði á fundinum að heimsókn til Bandaríkjanna gæti átt sér stað í mars. Hún vonast til að Trump muni breyta afstöðu sinni í málinu. „Ég vona, ekki bara í tengslum við Trump, heldur að nýtt Bandaríkjaþing muni fylgja þessu máli betur eftir,“ sagði hún og barðist við tárin á sama tíma.
Trump var veittur frestur til dagsins í dag til að skila skýrslu til þingsins um það hver ber ábyrgð á morðinu á Khashoggi.
Morðið vakti mikla reiði víða um heim og sverti að miklu leyti ímynd krónprinsins Mohammed bin Salman, sem hefur verið sakaður um að hafa fyrirskipað verknaðinn.
Ríkisstjórn Trump hefur hingað til sagt að engar haldbærar sannanir séu fyrir aðild prinsins að morðinu.